Aðsent

Ragnar Örn Pétursson - minningarorð
Miðvikudagur 4. maí 2016 kl. 17:44

Ragnar Örn Pétursson - minningarorð

Ragnar Örn varð landsþekktur sem íþróttafréttaritari en sterk og hljómmikil röddin var kunnuleg þjóðinni sem fylgdist spennt með íþróttalýsingum í útvarpi. Hann talaði kjark í hlustendur í lýsingum sínum og þegar hann lýsti landsleikjum landsliðisins í fótbolta hafði maður það á tilfinningunni að þessi kraftmikla rödd gæti breytt gangi leiksins. Tvö núll undir en samt blés Ragnar Örn von í bjóst landsmanna á öldum ljósvakans og maður trúði því að við gætum unnið þó að lokamínúturnar væru óumflýjanlegar fyrr en maður vildi. Við nánari kynnni upplifði ég kraftinn og lausnamiðaðan málflutning þessa stóra og föngulega manns sem ekki fór troðnar slóðir í lífinu og var stefnufastur í málflutningi, útsjónasamur og tillögugóður. Ragnar Örn var fylgin sér og enginn já maður í samskiptum. Ég kunni vel við hreinskiptar skoðanir hans sem hann setti fram á kjarnmikinn og sannfærandi hátt og lét ekki skammtíma vinsældir þvælast fyrir sér. Áhugaverðar umræður á skrifstofu hans og Stefáns Bjarkasonar voru oft heitar þegar rætt var um íþróttalífið í Reykjanesbæ eða Ljósanótt sem var oftar en ekki viðfangsefni okkar félaga þann góða tíma sem við unnum saman. Það fór ekki framhjá neinum manni þegar Ragnar Örn var á ferðinni. Þessi stóri og stæðilegi maður, dökkur á brún og brá og þessi stóra rödd var punkturinn yfir i-ið þegar ég velti hollingunni á Ragnari Erni fyrir mér. Hann gat gengið ákveðið fram og fastur fyrir þegar klára þurfti mál, eiginleiki sem forystumaður í félagasamtökum þarf að búa yfir og ég kunni vel við þann eiginleika hans. Þegar vinnufélaginn varð vinur kom í ljós hlýr og góður maður sem stóð með sínum, elskaði fjölskyldu sína og fylgdist vel með gengi barna sinna og barnabarna. Þar var hann hlekkurinn á milli kynslóðanna sem aldrei brást og nú stendur fjölskyldan saman sem aldrei fyrr. Nú er tími til að næra kærleikann um góðar minningar með því að hugsa um fallegar myndir samverunnar og hvílast með þeim. Ég hugsa um ferð okkar hjóna á Þjóðhátíð í Eyjum með góðum vinum fyrir nokkrum árum en þar kynntist ég annari hlið á Ragnari Erni og Siggu sem ég geymi á góðum vöxtum í minningabókinni okkar sem er full af glettni og trausti sem fylgdi vináttu okkar. Samstarfið á pólitískum vettvangi var líka skemmtilegt enda sló í brjósti hans sterkt hjarta Sjálfstæðismannsins sem fór alltaf alla leið í baráttunni. Erfiður sjúkdómur hefur á skömmum tíma unnið það mein sem aldrei varð bætt. Röddin hvetjandi og sterk náði ekki, þrátt fyrir mikinn vilja, að tala þunga stöðu í erfiðum sjúkdóm til sigurs. Lífsleik Ragnars Arnar lauk langt fyrir eðlilegan leiktíma og eftir sitja ljúfu minningarnar um góðan dreng. Ég áttaði mig á því að hann kunni að lesa leikinn og vissi stöðuna þegar við áttum notalega stund saman skömmu fyrir andlátið. Ragnar Örn hafði með sinni sterku og miklu rödd fengið heila þjóð til að trúa á sigur í vonlausri stöðu en í hans eigin lífsleik brast röddin fyrir stöðunni. Ég votta Siggu, börnum þeirra og barnabörnum, allri fjölskyldunni djúpa samúð.

Ásmundur Friðriksson, alþingismaður.
 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024