Aðsent

Minning: Jóhanna Sæmundsdóttir
Sunnudagur 9. júlí 2017 kl. 06:00

Minning: Jóhanna Sæmundsdóttir

-F. 23.9. 1928 - D. 12.6. 2017

Hún var mannvera af besta gæðaflokki og skilur eftir sig betri heim. Nanna var Vesturbæingur eins og ég. Hún var á aldur við mömmu, bjó í húsi forfeðra sinna, gift Valdimar sínum og saman eiga þau fjóra syni. Vesturbæjarvillingurinn ég tók snemma eftir fólki sem var það sjálft, barst ekki á, vann verk sín hljóð og skilaði ávallt sínu besta til samfélagsins, tók ekki annað en það hafði sannanlega unnið fyrir. Þannig var fjölskylda Nönnu. Valdimar var sjómaður sem bar björg í bú, Nanna sá um mest allt annað. Drengirnir þeirra skáru sig úr Vesturbæjar barnahópnum. Þeir léku með okkur, en voru ekki ,,villingar". Ég bar virðingu fyrir uppeldinu á þeim, sem skilaði sér m.a. í afburða nemendum og síðar fyrirmyndar fullorðnum mannverum.

Þegar ég gekk með yngri son minn, bjó ég í næsta húsi við fjölskylduna. Mamma var farin að vinna úti og ég þurfti að finna mér nýtt dagforeldri. Ég heimsótti Nönnu og spurði hvort hún væri tilbúin að hjálpa mér með uppeldi ófædda barnsins. Hún ræddi hugmyndina við Valdimar og drengina og úr varð dagfjölskylda sonar míns.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sonur minn var hjá þeim virka daga í sjö ár. Á þeim tíma lærði hann margt gott sem hefur fylgt honum síðan. Nanna tók hlutverk sitt alvarlega og stóð fullkomlega undir væntingum mínum. Valdimar hafði gaman af peyja og urðu þeir mestu mátar, borðuðu saman hákarl ofl.

Eitt atvik er mér sérstaklega minnisstætt, en það sýnir svo vel yfirvegun, æðru- og fordómaleysi Nönnu. Ég hafði hætt að reykja og hafði orð á því við Nönnu að ég fyndi svo sterka tóbakslykt af fólki sem reykti. „Já, Hjördís mín, svona lykt hefur fylgt drengnum þínum frá því þú komst með hann fjögurra mánaða." Ég efast ekki um að þessi setning hafi hjálpað mér að halda reykbindindinu.

Vinátta mín og þeirra hjóna hefur haldist, þó samverustundum hafi fækkað. Það var alltaf gott að sækja þau heim og tekið á móti mér með hlýju þegar ég birtist. Síðustu árin hef ég litið til þeirra af og til á Nesvelli og farið heim betri manneskja.

Ég er þakklát að hafa fengið Nönnu og fjölskyldu hennar inn í líf mitt og fjölskyldu minnar fyrir 38 árum. Hugur minn er hjá Valdimar, strákunum fjórum og fjölskyldum þeirra.

Hjördís Árnadóttir