Aðsent

Menntun barna
Laugardagur 28. apríl 2018 kl. 06:00

Menntun barna

Þrátt fyrir mikla íbúaaukningu hefur tekist að fjölga leikskólaplássum í takt við hana svo engir biðlistar eru eftir leikskóla fyrir börn 2-5 ára börn. Þá var sett sú stefna fyrir átta árum síðan að leikskólabörn okkar skyldu betur undirbúin fyrir læsi þegar þau kæmu inn í grunnskóla. Án efa hefur þessi stefna stuðlað að betri árangri fleiri barna í grunnskóla. Þennan árangur þarf að varðveita og huga að nýjum leikskólum svo börn eigi áfram kost á leikskólaplássi án biðlista.

Við viljum bestu grunnskóla fyrir okkar börn og Reykjanesbæ tókst á síðasta áratug með góðri samvinnu bæjaryfirvalda og starfsfólks skóla að lyfta skólum úr lægstu sætum á samræmdum prófum upp í hóp hinna bestu. Hingað sóttu skólamenn alls staðar að af landinu til að fræðast um þessa byltingu. Bæjarstjórn þarf áfram að sýna raunverulegan áhuga á fræðslumálum og vinna í takt með fræðsluskrifstofu og starfsfólki skóla. Með öflugu skólafólki í okkar röðum og með samvinnu við foreldra verður árangrinum viðhaldið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Mikilvægt er að veita öllum börnum tækifæri til menntunar sem stenst alþjóðlegan samanburð. Ungt fólk þarf að hafa möguleika til að geta starfað hvar sem er og til að svo megi verða þurfum við að veita þeim trausta og góða menntun sem leggur grunn að öflugu atvinnulífi. Grunnurinn er að öll börn nái góðum tökum á læsi svo þau eiga auðveldara með að standast námskröfur. Börn sem geta lesið sér til gagns við lok grunnskóla eru líklegri til að  ljúka námi á tilsettum tíma í framhaldsskóla. Þau verða einnig virkari þátttakendur í samfélaginu og eru líklegri til að hafa atvinnu. Leggjum áherslu á fjölbreytni í framhaldsnámi í okkar heimabyggð. Við ætlum að stuðla að að  fleiri framhaldsdeildum í heimabyggð sem endurspegla atvinnuverkefnin tengdum hugbúnaðargerð, flugnámi og tæknifræði. Með samvinnu bæjarins, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Keilis og ríkis getum við gert þetta ef við vinnum saman.

Anna Sigríður Jóhannesdóttir.
Skipar 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ