Aðsent

Lokaorð Ingu Birnu Ragnarsdóttur- Börn náttúrunnar
Mánudagur 26. febrúar 2018 kl. 06:00

Lokaorð Ingu Birnu Ragnarsdóttur- Börn náttúrunnar

Rannsóknir sýna að sl. 15 ár hafa andleg mein barna aukist gríðarlega í hinum vestræna heimi.  Eitt af hverjum fimm börnum á við sálræna erfiðleika að stríða, við erum að horfa fram á 43% aukningu í greiningu á ADHD, 37% aukning er á þunglyndi barna og sjálfsmorðstíðni barna á aldrinum 10-14 ára hefur aukist um 200%.  Þetta eru mjög sorglegar tölur og við sem samfélag verðum að bregðast við. Ég upplifi þetta sem samfélagslegt vandamál og þar eigum við foreldrar stóran þátt. 

Við vitum öll að hlutverk okkar foreldra er að taka ábyrgð á velferð barnanna okkar. Lífsstíll meðalbarns í dag einkennist samt sem áður alltof oft af rafrænt fjarverandi og of eftirlátssömum foreldrum sem leyfa börnunum að ráða of miklu. Börnum finnst þau almennt eiga skilyrðislausan rétt í stað þess að vera ábyrg fyrir því að afla sér réttinda. Þau fá ekki nægan svefn og lítil regla er á mataræði. Þau hreyfa sig minna og eru meira innandyra en áður. Tæknin hefur í meira mæli tekið við sem barnapía með sinni botnlausu örvun, gagnvirkni og afþreyingu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Foreldrar verða að læra að segja oftar „nei“. Við erum ekki vinir barnanna okkar. Við erum foreldrar þeirra. Við þurfum að setja þeim mörk og við þurfum að skapa þeim þann lífstíl sem þau þurfa en ekki lífstíl sem þau vilja. Sjá þeim fyrir næringarríkum mat og draga úr millimálum og snörlum. Setja reglur varðandi útiveru og hreyfingu. Fjölskyldumáltíðir eiga að vera ótruflaðar af tækni. Börn þurfa að vera þátttakendur í heimilisverkum og snjalltæki eiga sannarlega ekki heima í svefnherbergjum á háttatíma. 

Svo er það gæðatíminn, við þurfum að gefa okkur tíma til þess að tala við börnin okkar.
Fyrir einhverjum tíma var svokallað „foreldravandamál” tíðrætt. En það fólst í villunni við að reyna endalaust að ala upp ólympíumeistara eða annars konar snillinga. Við sem foreldrar stóðum á hliðarlínunni á öllum keppnum og viðburðum og dæmi voru um að foreldrar læsu kennurum og þjálfurum pistilinn.

Þetta hefur ekki breyst að mínu mati, vandamálið hefur bara stækkað í þessari samfélagsmiðla- og tæknibyltingu. Við látum börnin okkar ekki taka nægilega ábyrgð á sjálfum sér sem kemur niður á sjálfstæði þeirra. Erum sömuleiðis tilbúin að kenna einhverjum öðrum um þegar árangur er undir væntingum í staðinn fyrir að líta í eigin barm. Þetta er spurning um hinn klassíska gullna meðalveg, vera betur vakandi og taka stjórn. Það er börnunum okkar fyrir bestu að fá leiðsögn en ekki að vera handstýrt, hvorki af foreldrum né tækni.