Aðsent

Í skuldaánauð til 2035?
Laugardagur 30. apríl 2016 kl. 08:00

Í skuldaánauð til 2035?

Í umræðum um ársreikning í bæjarstjórn þriðjudaginn 19. apríl  fullyrti bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins að hægt væri að ná markmiðum um skuldaviðmið með öðrum leiðum en niðurfellingu skulda. Var þar nefnt sem dæmi að skuldaviðmið hefði lækkað á síðustu 4 árum úr 297% í 230% og að með sama áframhaldi yrði viðmiðinu náð undir 150% fyrir árslok 2022. Þessi fullyrðing stenst ekki því á þessu tímabili, nánar tiltekið árið 2012, var samið um lækkun leiguskuldbindinga Reykjanesbæjar um 1,9 milljarða í tengslum við endurskipulagningu Eignarhaldsfélagsins Fasteignar. Einnig fór þá fram sala svokallaðs Magma bréfs sem nam um 3,5 milljörðum. Skuldaviðmið í árslok 2012 var 246% og hafði lækkað um 59% vegna þessara aðgerða. Á árinu 2015 nam greiðsla vegna lækkunar hlutafjár HS-Veitna einum milljarði. Það er ljóst þessar eignir verða ekki seldar aftur. Nauðsynlegt er að líta til þessara atriða við mat á árangrinum.

Þróun skuldaviðmiðs sl. 5 ár:

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

   •    Árið 2011 var skuldaviðmiðið 304%    

   •    Árið 2012 var skuldaviðmiðið 246% eftir samninga um lækkun leiguskuldbindinga

   •    Árni 2013 hækkaði skuldaviðmiðið aftur og var 248%    

   •    Árið 2014 var skuldaviðmiðið 233%    

   •    Árið 2015 er skuldaviðmiðið 230%.

Ef horft er framhjá þessari skuldalækkun og eignasölu á árinu 2012, samtals að fjárhæð 5,4 milljarðar króna, hefur skuldaviðmiðið því aðeins lækkað um 16%, úr 246% í 230% á 4 árum, eða 4% að meðaltali á ári. Það þýðir að með sama áframhaldi, án nokkurra skuldaniðurfellinga, myndi skuldaviðmið Reykjanesbæjar aðeins lækka um 28% á næstu 7 árum og verða 202% í árslok 2022. Með því værum við langt frá því að uppfylla ákvæði sveitarstjórnarlaga um 150% skuldaviðmið í árslok 2022. Með sama árangri myndum við því fyrst ná skuldaviðmiði í lok árs 2035 og þá með miklu aðhaldi í rekstri og uppbyggingu innviða, s.s. grunn- og leikskóla, hærri sköttum á íbúa og þannig í raun halda samfélaginu í skuldaánauð allan tímann.

Fyrirliggjandi samþykkt rekstraráætlun Reykjanesbæjar frá 15. desember 2015 gefur ekki þá mynd að Reykjanesbær eða Reykjaneshöfn geti náð að þjóna núverandi skuldir ásamt lögboðnum skyldum við íbúana öðruvísi en að halda þeim í skuldaánauð til mjög langs tíma. Jafnframt getur Reykjanesbær ekki, skv. þeirri áætlun né fyrirliggjandi aðlögunaráætlun, komist undir 150% skuldaviðmið fyrir 2022 án niðurfellingar skulda, sem er forsenda aðlögunaráætlunar.

Samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun verða skuldir umfram skuldaviðmið um 14 milljarðar í árslok 2022 eða um 8,8 milljarðar að núvirði. Stærstu kröfuhafar réðu sér ráðgjafa til að yfirfara áætlanir Reykjanesbæjar og forsendur þeirra. Fór vinna ráðgjafanna fram á tímabilinu október til febrúar sl. Var niðurstaða þeirra að skuldavandinn væri 6.350 milljónir króna. Voru í því samhengi meðal annars skoðaðar forsendur um íbúafjölgun, samsetningu íbúa, búsetukostnað í samanburði við önnur sveitarfélög, fjárfestingarþörf í skólum, mögulega eignasölu og fleira.

Öll umræða af hálfu minnihluta bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar um að hægt sé að ná skuldaviðmiði fyrir árslok 2022 án afskrifta skulda kröfuhafa er því án gildra forsendna og í raun skaðleg fyrir þá samninga sem standa yfir við kröfuhafa. Þessi framsetning minnihlutafulltrúans dregur úr tiltrú kröfuhafa á þeirri miklu vinnu sem fram hefur farið á síðustu 18 mánuðum og varðar heildarendurskipulagningu Reykjanesbæjar. Slík umræða miðar eingöngu að því að skaða þann árangur sem þegar hefur náðst og hneppa íbúana í skulda- og skattaánauð til langs tíma.



Guðbrandur Einarsson,
forseti bæjarstjórnar og oddviti Beinnar leiðar

Friðjón Einarsson,
formaður bæjarráðs og oddviti Samfylkingarinnar


Gunnar Þórarinsson,
bæjarfulltrúi og oddviti Frjáls afls