Aðsent

Himnaríki eða Heiðarbyggð?
Mánudagur 9. apríl 2018 kl. 13:51

Himnaríki eða Heiðarbyggð?

- Sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis – hugmynd um nýtt nafn

Eftir að Víkurfréttir birtu líklegar hugmyndir að nafni á hið sameinaða sveitarfélag Garðs og Sandgerðis svo sem Útnes, Útnesbyggð, Suðurbyggð, Ystabyggð og Ægisbyggð, lenti ég með hópi fólks víða að af landinu sem hafði áhuga á málinu. Flestum í þessum hópi fannst þau nöfn sem nefnd höfðu verið ekki hafa nægilega skírskotun til byggðarlaganna. Einn spurði, „ Ef nafnið má hafa skírskotun til sjávarins, af hverju má það þá ekki hafa skírskotun til himinsins“? „Hvað með að láta nafnið verða Sveitarfélagið Himnaríki eða Himinsbyggð“? Þessi hugmynd fékk skemmtilega umræðu þar sem meðal annar kom fram að það gæti verið söluvænt að bjóða ferðamönnum sem koma með flugi að lenda í Himnaríki. Hugsið ykkur ef flugfreyjur segja, „Góðir farþegar, við lendum í Himnaríki eftir 10 mínútur“. Einhver sagði að þetta gæti líka virkað dálítið kaldhæðnislegt.
 
Annar spurði, „Er ekki eitthvað í umhverfinu sem sveitarfélögin eiga sameiginlegt, hvað með Miðnesheiðina sem liggur frá Garðskaga að Ósabotnum“? „Gömlu bæjarmörkin liggja um þessa sögufrægu heiði og alþjóðaflugvöllurinn  í sameinaða sveitarfélaginu stendur á háheiðinni“. Í umræðum um þetta kom fram hjá flestum sú skoðun að nafnið Heiðarbyggð, sé bjart og fallegt og ekki síður táknrænt fyrir bæði sveitarfélögin. Í umræðunum var bent á að víða um land hefðu sameinuð sveitarfélög fengið nöfn sem vísa til umhverfis eða staðsetningar. Þar voru nefnd meðal annarra Fjallabyggð, Fjarðabyggð, Dalabyggð, Strandabyggð, Skagabyggð, Vesturbyggð, Borgarbyggð og Langanesbyggð. 
 
Nafnið Heiðarbyggð hefur fengið góðar undirtektir þar sem það hefur borið á góma undanfarna daga og vonandi verður þetta eitt af þeim nöfnum sem íbúar Garðs og Sandgerðis fá að kjósa um.
 
Bestu kveðjur,
Jón Norðfjörð
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024