Aðsent

Heilsugæslan er hjarta heilbrigðisþjónustunnar
Föstudagur 30. mars 2018 kl. 06:00

Heilsugæslan er hjarta heilbrigðisþjónustunnar

Alþingi samþykkti að styrkja heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni um 400 m.kr. við afgreiðslu fjárlaga 2018. Heilbrigðisráðherra hefur  nú ákveðið að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fái þar af í sinn hlut 54 m.kr., til viðbótar við þá 2.810,3 m.kr sem lagðir voru til stofnunarinnar í fjárlögum ársins 2018. Af viðbótarframlaginu eru 15 m.kr. ætlaðar til geðheilbrigðismála og 39 m. kr. til eflingar heilsugæslunnar. Þessi skipting er í samræmi við athugasemdir Landlæknis í skýrslu frá 2017.

Of fáar umsóknir
Í skýrslu Landlæknis kom m.a. fram að húsnæði heilsugæslunnar væri komið til ára sinna og að bæta þurfi við hjúkrunarfræðingum til að efla slysa- og bráðamóttöku og að auka  þyrfti teymisvinnu lækna og hjúkrunarfræðinga á heilsugæslunni, með það að markmiði að bæta þjónustu við íbúa. Stjórnendum HSS hefur reynst þrautinni þyngra, þrátt fyrir góðan vilja, að manna samþykktar stöður þar sem stofnunin hefur ekki verið samkeppnisfær við nágrannastofnanir hvað launakjör varðar. Að auki hefur álag á starfsfólk aukist gríðarlega vegna aukins ferðamannafjölda og fordæmalausrar íbúafjölgunar. Að þessu sögðu er ljóst að liður í því að bæta þjónustu HSS við íbúa svæðisins er að hægt sé að manna allar samþykktar stöður og bæta við fleiri stöðum. Það verður ekki hægt nema að fjárframlög til stofnunarinnar verði aukin enn frekar svo stjórnendur geti boðið samkeppnishæf laun og betri aðbúnað.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Frítökuréttur og verktaka
Skortur á heimilislæknum er landlægur þar sem allt of fáir heimilislæknar hafa útskrifast hin síðari ár. Frítökuréttur lækna er bundin í kjarasamninga og þar sem HSS er með sólahrings bráðaþjónustu þá safnast frítökurétturinn hratt upp. Lækna geta selt sig í verktaka vinnu um land allt en stjórnendur HSS hafa kosið að kaupa ekki „verktökulækna“. Ég er reyndar á þeirri skoðun að þetta "verktökukerfi" lækna þurfi að taka til gagngerrar endurskoðunar. Hið opinbera þarf að móta stefnu og setja reglur um þessa starfsemi. Mér finnst ekki eðlilegt að stjórnendur heilbrigðisstofnana þurfi að standa í því að bjóða í lækna á einhvers konar uppboðsmarkaði á sama tíma og þeir fá mjög takmarkaða fjármuni til reksturs.

Áhersla á geðheilbrigðisþjónustu
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð rík áhersla á bætta geðheilbrigðisþjónustu um land allt. Starfsemi geðteymis heilsugæslu HSS tók formlega til starfa í júlí árið 2011. Um tíma var teymið undirmannað og skorti fleiri fagaðila en nú er það fullmannað öflugu starfsfólki. Hjá teyminu er starfandi yfirsálfræðingur. Starfsemin er nú komin á fullt skrið að nýju og vel gengur að vinna á biðlistum. Félagsleg- og andleg vanlíðan er mikil á Suðurnesjum er mikil og því bráðnauðsynlegt að efla þennan þátt starfseminnar. Viðbótar fjárframlag eyrnamerkt geðheilbrigðisþjónustu er því kærkomið.
Ég er sannfærð um að með skýrum markmiðum og góðri samvinnu náum við að styrkja stöðu HSS til framtíðar og bæta þjónustu við íbúa enn frekar.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins