Aðsent

Heilsan og hafragrauturinn í FS
Föstudagur 26. september 2014 kl. 07:00

Heilsan og hafragrauturinn í FS

María Líndal formaður Foreldrafélags FS skrifar:

Fjölbrautaskóli Suðurnesja er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli ásamt flestum framhaldsskólum landsins. Heilsueflandi framhaldsskóli byggir á þeirri stefnu að nálgast forvarnir út frá víðtæku og jákvæðu sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að vellíðan og auknum árangri allra í skólasamfélaginu, nemenda og starfsfólks. Verkefnið veitir aukin tækifæri til að efla tengslin við nærsamfélagið og auka þannig stuðning og tækifæri nemenda og starfsfólks til að tileinka sér jákvæðan og heilbrigðan lífsstíl.
Fjölmargar rannsóknir styðja við þessa nálgun enda sýna þær að heilsueflandi umhverfi bætir líðan nemenda, stuðlar að bættum námsárangri og dregur úr brottfalli. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á heimasíðu Landlæknisembættisins.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja er með heilsu- og manneldisstefnu og er meginmarkmiðið að nemendur og starfsmenn hafi aðgang að fjölbreyttu og hollu fæði í mötuneyti skólans. Samkvæmt manneldismarkmiðum, og til að stuðla að heilbrigði, er yfirlýst stefna skólans að gosdrykkir og sælgæti eru ekki og verða ekki til sölu í skólanum. 
Nú þegar nýtt skólaár er hafið og nýir nemendur að hefja sína framhaldsskólagöngu í FS langar mig fyrir hönd foreldrafélagsins að minna foreldra á hafragrautinn og lýsið sem hefur verið í boði mötuneyti skólans frá árinu 2006.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hafragrautur og lýsi er nemendum að kostnaðarlausu frá kl. 7:45 til kl. 9:00 en svo geta þau keypt sér heitan mat í hádeginu ásamt fjölbreyttu úrvali af hollum réttum. Hafragrautur er frábær leið til að koma hollustu ofan unglingana á morgnana. Nemendur geta komið og fengið sér graut sem er holl og góð næring en jafnframt notið félagsskapar vinanna til að koma sér í gang fyrir daginn. Góð aðsókn hefur verið í grautinn holla og fer hún vaxandi.  Ég vil benda á síðu Fjölbrautaskólans fss.is. Undir „þjónusta“ eða „skólinn“ er hægt að finna allt um heilsu- og manneldisstefnu skólans, matseðil og annað fræðandi og skemmtilegt efni.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja og Foreldrafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja eru með facebooksíður þar sem við reynum að vera með upplýsingar fyrir nemendur og foreldra um væntanlega viðburði og annað fróðlegt efni.

Stefnum að hollari og frískari framtíð í FS.

María Líndal
formaður Foreldrafélags FS