Aðsent

  • Geo-park eða Neon-park?
  • Geo-park eða Neon-park?
    Inga Þórey Jóhannsdóttir
Föstudagur 13. nóvember 2015 kl. 10:15

Geo-park eða Neon-park?

– Allir inn og loka gluggunum, við grillum þegar það kemur rok

Nokkrum vikum eftir að ég flutti til Keflavíkur, fjölskyldan nýbúin að festa kaup á gömlu húsi í elsta hluta bæjarins, fyrir 15 árum síðan, fór ég að velta fyrir mér hvaðan kalda vatnið úr krananum mínum kæmi. Mér til mikillar furðu höfðu vatnsból bæjarins fyrir löngu orðið mengun að bráð, eftir glórulausa starfsemi á Keflavíkurflugvelli. Í þá daga létu menn hvað sem var gossa ofan i jarðveginn án þess að leiða hugann að afleiðingunum. Afísingarefni fyrir flugvélar, olía og fleira gums fékk að flæða niður í jarðveginn, frjálst og óhindrað. Þetta gerðist ekki bara uppi á sjálfum flugvellinum – það voru jafnt Íslendingar sem Ameríkanar sem gengu svona illa um. Til eru staðfestar tölur um að 100.000 lítrar af olíu hafi lekið úr tönkum á „nikkelsvæðinu“. Það svæði liggur mitt á milli Keflavíkur og Njarðvíkur og teygir sig niður eftir miðjum bænum. Þar með tókst mönnum að eitra vatnsbólin til næstu áratuga, ef ekki árhundraða. Hverjir höfðu áhyggjur af því hvort vatnið væri mengað?
Það er allavega vitað að Ameríkanar hjá Varnarliðinu höfðu áhyggjur af eigin sóðaskap og fengu til sín fagmenn til að rannsaka vatnið. Ég veit ekki hvort íslensk yfirvöld höfðu einhvern áhuga á þessum málaflokki, en læt það liggja milli hluta. Niðurstöður rannsókna sýndu að vatnið var hvorki mönnum né dýrum bjóðandi. Blessunarlega var hægt að redda málunum með því að sækja vatn í önnur vatnsból á Reykjanesinu. Er hægt að draga einhvern lærdóm af þessu?

Ég nefni þetta vegna þess að í dag, 15 árum síðar, stend ég ásamt fjölskyldu minni frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort við eigum að selja húsið okkar, eða leigja það út til að geta flutt annað, á slóðir þar sem við getum verið viss um að anda að okkur þokkalega hreinu lofti.

Þessu velti ég fyrir mér í ljósi þess að búið er að veita leyfi fyrir álveri Norðuráls, kísilveri United Silicon og nú síðast kísilveri Thorsil. Með aðeins eitt stykki umhverfismat á bak við sig, sem notabene var unnið á því tímabili þegar álverið sótti um leyfi. Þetta þýðir að kísilverin tvö (þau stærstu í Evrópu) fá að fljóta frítt með í skjóli álversins. Okkur íbúunum sem höfum kosið að búa í elsta hluta bæjarins, er boðið upp á stóriðju í bakgarðinum okkar af hálfu fyrrverandi og núverandi bæjarstjórnar. Það er aðeins einn og hálfur kílómetri heim til mín frá Helguvík. Hafið þið skoðað þessa hlægilegu teikningu sem sýnir línuna sem markar þynningarsvæðið? Hún liggur þétt við stofugluggann á ysta húsinu uppi á Bergi. Á þessu sama svæði eru kartöflugarðar og gott ef ekki skólagarðar Reykjanesbæjar, ásamt smábátahöfn.

Sú spurning vaknar hvort atvinna og peningar sé metið mikilvægara en heilsufar bæjarbúa? Það er enginn feluleikur í sambandi við efnið brennisteinsdíoxíð, sem talið er helsti mengunarvaldurinn þegar um kísilver er að ræða. Þetta er sama efnið og kom upp úr Holuhrauni fyrir ekki svo löngu síðan. Hver man ekki eftir veðurfréttunum meðan á gosinu stóð: Þegar vindurinn blés í ákveðna átt og austfirðingum var ráðlagt að halda sig innandyra.

Hefur fólk ekki áhyggjur af því að komast ekki út á pallinn sinn, þá fáu daga sem lygnir í þessum bæ? Og hvað með eigur okkar? Er ekki altalað að brennisteinsdíoxíð valdi tæringu á málmum? Veltum fyrir okkur tjóninu sem þetta gæti valdið, ef við látum þetta yfir okkur ganga án þess að mótmæla og krefjast frekari rannsókna áður en kísilverunum er veitt leyfi. Hvað með tjón á bílum eða bárujárnsklæðningum á húsum og þökum bæjarins? Hvað með mengunarvalda og möguleg heilbrigðisvandamál tengd þeim? Hvað með endursölu húsnæðis, sem verður enn erfiðari en hefur verið hingað til?

Reykjanesið er náttúruperla. Hægt og bítandi hafa ferðamenn og ferðaskrifstofur verið að uppgötva ýmsa möguleika í ferðaþjónustu á svæðinu. Nándin við flugvöllinn gerir þetta ákjósanlegt tækifæri, sem er verið að spilla með verksmiðjuframkvæmdum. Í huganum birtast myndir af bæjarbúum sem t.d. leigja ferðamönnum íbúðir sínar og fá framvegis neikvæð ummæli frá gestum sem kvarta sáran yfir óútskýrðum sviða í augum og öndunarfærum. Í víðara samhengi má velta fyrir sér hvaða áhrif það hafi á áhuga ferðamanna á að koma til landsins þegar verksmiðjum er hrúgað niður, nánast á bæjarhlaði eina alþjóðlega flugvallar Íslands.

Þessa dagana flæða yfir okkur jákvæðar fréttir í fjölmiðlum um gang mála hjá Thorsil. Eina fyrirtækið af þessum þremur sem enn hefur ekki fengið öll tilskilin leyfi, sem er ástæða þess að hópur íbúa fór af stað með undirskriftasöfnun í sumar. Hópurinn á það helst sameiginlegt að trúa því að bæjarbúar hafi enn tækifæri til að hafa áhrif á gang mála. Rafræn íbúakosning um breytingu á deiliskipulagi í Helguvík mun fara fram dagana 24. nóvember til 4. desember. Bæjarstjórinn hvetur íbúa til að taka þátt í kosningunum, en um leið lætur hann hafa eftir sér að niðurstaðan verði ekki bindandi, bara ráðgefandi. Það lýðræðisskrum er efni í aðra grein, en ég efast sárlega um að maðurinn sé að vinna fyrir mig eða mitt fólk.

Ætlum við í alvörunni að láta hræða okkur með tali um skuldastöðu bæjarins og atvinnuleysi, sem vel að nefna, mælist mjög lítið þessi misserin? Er það í alvörunni þess virði að taka sénsinn fyrir skjótfenginn gróða og nokkur störf? Svo ég vísi nú aftur í menguðu vatnsbólin þá er eitt alveg öruggt: Það verður mun flóknara að sækja hreint loft eitthvert annað ef „eftirá“ rannsókn leiðir í ljós alvarlegar afleiðingar þess að menn og dýr búi svo nálægt kísilverum og annarri stóriðju.

Inga Þórey Jóhannsdóttir

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024