Fyrir hvern er svokölluð peningalykt?

Undirrituð er annar tveggja bæjarfulltrúa N listans í Sveitarfélaginu Garði og er ein af sjö í bæjarstjórn. Lengi hafa kvartanir borist til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, HES sem og til bæjarstjórnar vegna ólyktar frá fyrirtækjum sem þurrka fiskhausa í Garðinum. Fyrirtækin hafa haft starfsleyfi frá 2012. Hins vegar var byrjað að þurrka tveimur árum áður og það án leyfis frá HES. Í almennum starfsleyfisskilyrðum fyrir mengandi starfsemi eru ákvæði um lyktarmengun.

Í bæjarstjórn hefur verið rætt um þessi mál og vissi ég ekki betur en að fullur skilningur væri meðal bæjarfulltrúa um að nú væri nóg komið og íbúar fengju að njóta vafans. Afstaða N listans hefur verið alveg skýr í langan tíma, enga framlengingu á starfsleyfi til áframhaldandi hausaþurrkunar. N listinn óskaði eftir því á bæjarstjórnarfundi í byrjun maí að vera með í ráðum þegar fundarboð HES lægi fyrir. Það var ekki gert.

Fulltrúi Garðs í Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, sem valinn er af meirihluta bæjarstjórnar, tekur afstöðu þvert á alla fundi, umræður og kvartanir sem borist hafa vegna lyktarmengunar. N listinn getur ekki borið ábyrgð á fulltrúanum og ákvörðun hans. Það eru Sjálfstæðismenn sem bera ábyrgðina og er það gagnrýni vert að þau taki ekki hag íbúanna fram fyrir sérhagsmuni fyrirtækja.

Fulltrúi Garðs í stjórn HES situr í umboði bæjarstjórnar og ber bæjarstjórnin ábyrgð á honum og afstöðu hans. Bæjarstjórnin hefur hins vegar ekki ákvörðunarvald yfir nefndinni en getur hún ekki skipt um fulltrúa þótt niðurstöðu nefndarinnar sé ekki breytt? Kjörnum bæjarfulltrúum ber skylda til að setja hagsmuni íbúa sveitarfélagsins í forgang.

Það er leitt að vita til þess að lítið skuli vera gert úr raunum og upplifun þeirra íbúa sem búa sem næst þeim fyrirtækjum sem þurrka hausana. Alvarleiki málsins er alveg skýr, vanlíðan fjölda íbúa, og gleymum ekki því að þeir greiða árlega, eins og aðrir bæjarbúar útsvar og fasteignaskatt. Enginn íbúi á að þurfa að þola slíka framkomu hvorki frá bæjaryfirvöldum, fyrirtækjum né frá öðrum íbúum Garðs.

Margir slá því fram að lykt sé ekki hægt að mæla eða flokka sem góða eða vonda. Á vef Umhverfisráðuneytisins er skýrsla um loftgæði frá 2013. Í henni er greint frá tilraun sem gerð var erlendis og útfærð samkvæmt evrópskum staðli til að meta gæði lyktar af mismunandi efnum. Þátttakendur voru 150 og gáfu þeir lykt, af nokkrum efnum, einkunn. Tilraunahópurinn gaf nokkrum efnum lyktareinkunn á kvarðanum frá -4 til +4. Nýslegið gras fékk t.d. einkunnina +2,14, en lykt af kattarhlandi -3,64. Í sömu skýrslu kemur fram að óþægindi vegna lyktarmengunar hefur alvarleg heilsufarsáhrif á fólk.

N listinn er undrandi á því að fulltrúar, þeir sem sveitarfélögin tilnefndu pólitískt í HES, fulltrúi Garðs, Sandgerðis, Reykjanesbæjar, Voga og Grindavíkur, virði að vettugi heilræði embættismanna heilbrigðiseftirlitsins sem og lög og reglur Umhverfisstofnunar, þar sem kveðið er á í 1. grein laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir og er svohljóðandi: „Markmið þessara laga er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi.”.

Fulltrúi Garðs sýndi svo augljóslega fram á það með framgöngu sinni í þessu máli að hann áttar sig ekki á hlutverki HES sem er heilbriðgiseftirlit. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja starfar samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hvers eiga íbúar að gjalda?

Fyrir hönd N listans,
Jónína Holm bæjarfulltrúi.