Aðsent

  • Fólk fyrir kerfi eða kerfi fyrir fólk
  • Fólk fyrir kerfi eða kerfi fyrir fólk
Þriðjudagur 24. nóvember 2015 kl. 13:56

Fólk fyrir kerfi eða kerfi fyrir fólk

– Ísak Ernir Kristinsson skrifar

Ég hef verið hugsi yfir því ástandi sem er að verða á vinnumarkaði á Suðurnesjum sem er vöntun á vinnuafli. Umferð farþega um Keflavíkurflugvöll eykst ár frá ári. Tæpar fimm milljónir farþega fara um flugvöllinn á þessu ári og búist er við um sex og hálfri milljón farþega á næsta ári.  Þessi öra fjölgun kallar á gríðarlegan fjölda starfa.

Atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki á Suðurnesjum en er samt rúmlega 3%.  Stór hluti þess hóps sem er atvinnulaus eru einstæðar mæður.  Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig við getum boðið þessum hópi atvinnulausra að taka þátt í atvinnulífinu. Þau störf sem eru til í kringum flugið  sem og þau störf sem munu skapast á næsta ári eru gríðarlega verðmæt fyrir okkar samfélag. Vandi einstæðra foreldra er að einn af álagstímum flugstöðvarinnar er snemma á morgnana. Þess vegna verðum við að finna leiðir til þess að koma til móts við þennan hóp.

Reykjanesbær gæti farið ótroðna slóð á Íslandi er varðar opnunartíma leikskóla.  Víðsvegar um heiminn er boðið upp á lengri opnunartíma leikskóla.  Í Bandaríkjunum er boðið uppá leikskóla inn á mörgum stofnunum, svo sem framhaldsskólum og sjúkrahúsum.  Börnin fara í leikskólann á sama tíma og foreldrarnir mæta í vinnu.  Ég þekki til þess að sumir leikskólar í Danmörku opni klukkan sex á morgnana til þess að mæta þörfum fjölskyldna.  Með lengri og sveigjanlegri opnunaríma leikskóla má ná gríðarlegri framleiðiniaukningu í samfélaginu, öllum til góða. Reykjanesbær myndi þar með styrkja stöðu sína sem fjölskylduvænt sveitarfélag.

Við verðum öll sem eitt að finna raunhæfar leiðir til þess að koma til móts við þarfir fólks og bjóða öllum  tækifæri til að vera virkir þegnar samfélagsins. Sveitarfélag þarf að  bjóða upp á kerfi sem hentar fólki en ekki bjóða upp á kerfi sem ætlast er til að fólk passi í.  Tækifærin eru á hverju strái í Reykjanesbæ.  Ekki sér fyrir endan á uppbyggingu Keflavíkurflugvallar og svo eru að rísa stór og öflug fyrirtæki í Helguvík.  Við skulum strax huga að því að bæta okkar samfélag og sýna þannig að Reykjanesbær er frábært sveitarfélag fyrir fólk af öllu landinu til þess á búa í.

Ísak Ernir Kristinsson
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Velferðaráði.


 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024