Eiga Suðurnesjamenn ekki rétt á sömu heilbrigðisþjónustu og aðrir?

-Um málefni Heilsugæslu HSS

Heilbrigðismál hafa fengið mikinn og verðugan hljómgrunn undanfarin misseri á Íslandi. Taka þarf fram að umræðan er fyrst og fremst neikvæð tilkomin vegna fjárskorts, lélegrar mönnunar, aðstæðuleysis og aukins biðtíma í heilbrigðiskerfinu okkar. Heilsugæsla HSS fellur undir öll þessi atriði og gott betur en það.

 

Undirritaðar starfa sem deildarstjórar slysa- og bráðamóttöku HSS. Ítrekað höfum við ásamt starfsmönnum okkar bent á ýmsa vankanta sem snúa að aðstöðu okkar, ómanneskjulegu álagi og lélegri mönnun hjúkrunarfræðinga. Ítrekað höfum við fengið þau svör að stofnunin búi við fjárskort og að ekki sé hægt að hliðra til í þeim málefnum. Ljóst er að HSS fær mun minna fjármagn en aðrar sambærilegar heilbrigðisstofnanir en samkvæmt Ríkisendurskoðun í mars 2016, útgjaldaheimildir heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, kom fram að HSS fékk næstminnst allra heilbrigðisstofnana landsins tæpa 2,5 milljarða meðan að heilbrigðisstofnun Norðurlands fékk 4,7 milljarða sem er svipað og Suðurland fékk, Vesturland 4 milljarða og Austurland með 3 milljarða. Eina stofnunin sem fékk minna en við voru Vestfirðirnir með tæpa 2 milljarða en Vestfirðirnir eru talsvert minna samfélag en Suðurnesin.

 

Af hverju er þessi munur tilkominn?

Ef við setjum þetta upp í raunverulegt dæmi þá tökum við á móti svipuðum fjölda sjúklinga og bráðamóttakan á Akureyri. Á bráðamóttöku HSS starfa tveir hjúkrunarfræðingar á dagvakt milli 8 og 16 og tveir milli 16 og 24. Á miðnætti fara hjúkrunarfræðingarnir heim og það eru því aðeins tveir læknar á vakt þessar átta klukkustundir frá 24-08. Um helgar er staðan enn verri því þá er aðeins mönnuð ein vakt af hjúkrunarfræðingum milli klukkan 11 og 19. Eftir það, eða í 16 klukkustundir er ekki starfandi hjúkrunarfræðingur á bráðamóttökunni í samfélagi sem telur 16.800 manns í Reykjanesbæ eingöngu (maí 2017) ásamt því að þjónusta hin sveitarfélögin á Suðurnesjum auk Keflavíkurflugvallar.

 

„Það er ekki til peningur fyrir þessu!“

Þetta er klárlega dæmi um ógnun á öryggi íbúa að ekki sé starfandi hjúkrunarfræðingur á nóttunni og um helgar í svona annasömu sveitarfélagi sem er það fimmta stærsta á landinu. Mönnun hjúkrunarfræðinga á bráðamóttökunni hefur þó breyst í gegnum árin, við unnum ekki rauða daga á bráðamóttökunni fyrr en árið 2015 til dæmis. Þegar leitað er eftir skilningi af hverju ástandið sé svona er ávallt sama svarið, það er ekki til peningur fyrir þessu! Ár eftir ár eftir ár eykst álagið, það fjölgar íbúum, það fjölgar ferðamönnum, það fjölgar slysum, ásamt mikilli fjölgun hælisleitenda, aldraðra og veikra einstaklinga og biðtíminn eykst eðlilega í kjölfarið. Samkvæmt rannsókn Sigrúnar Sæmundsdóttur og Guðlínar Jónu Ómarsdóttur hefur aukning í komum á erlendum ferðamönnum á bráðamóttöku HSS aukist um 344% milli áranna 2005 og 2016. Engu að síður erum við alltaf þrjú að vinna á bráðamóttökunni, tveir hjúkrunarfræðingur með einum lækni þar til við förum heim og skiljum lækninn einan eftir með ábyrgð heimsins á sínum herðum. Þetta er hræðilegt, pínlegt og ótrúlegt að ástandið sé ennþá svona og að við fáum engin svör.

 

Ef við miðum okkur við aðrar bráðamóttökur þá hefur verið næturvakt hjúkrunarfæðings á Selfossi síðan árið 2011 og enn lengur á Akureyri þar sem eru tveir hjúkrunarfræðingar eru á næturvakt á bráðamóttöku.

 

Íbúum og ferðamönnum fjölgar og álagið eykst

Á flestum vinnustöðum er samráð um framtíðina. Það er leitast við að leysa vandamál sem koma upp eins og að auka mönnun í takt við álag. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að starfsfólk hreinlega brenni út. Þetta er ekki gert á HSS! Við erum ennþá þrjú, ár eftir ár að hlaupa hraðar og hraðar og reyna hvað við getum en þetta er ekki dæmi sem gengur upp. Nú þegar eru reyndir hjúkrunarfræðingar að hætta störfum sökum álags sem fólk hreinlega treystir sér ekki í lengur. Hvar endar þetta? Þetta endar með hörmungum.

 

Af hverju eiga Suðurnesjamenn ekki sama rétt og aðrir landsmenn á góðri heilbrigðisþjónustu? Af hverju er þetta ekki lagað ár eftir ár eftir ár? Af hverju fær HSS ekki meira fjármagn? Af hverju er framkvæmdastjórn HSS ekki sýnilegri og talar máli sinnar stofnunar út á við?

 

Samkvæmt Lýðheilsuvísum Landlæknis fyrir árið 2017 kom fram varðandi Suðurnes að fjölgun íbúa væri yfir landsmeðaltali sem sýnir klárlega mikla íbúfjölgun undanfarinna ára en bara árið 2016 fjölgaði íbúum Reykjanesbæjar um meira en 7%. Auk þess er martækt aukin streita fullorðinna og fleiri sjúkrahúslegur vegna langvinnrar lungateppu. Dánartíðni vegna krabbameina er marktækt meiri og einnig ótímabær dauðsföll vegna langvinnra sjúkdóma. Þetta er allt dæmi um veikt fólk sem þarf okkar aðstoð.

 

Allir veikir flugfarþegar koma fyrst inn á bráðamóttöku HSS og allir slasaðir ferðamenn úr Bláa lóninu nema í örfáum tilfellum þar sem þeir fara beint á Landspítalann. Mesta álagið sökum þessara veiku ferðamanna lendir því á bráðamóttöku HSS.

 

Bráðamóttakan er mjög lítil en hún samanstendur af fimm stofum, þar af voru þrjár þeirra áður skrifstofur. Bráðamóttakan er opin, óvarin og starfsfólk því móttækilegra fyrir hættum sem þar kunna að skapast.

 

Betri aðstöðu, aukna fjármögnun og betri mönnun

Samkvæmt hlutaúttekt Landlæknis á starfsemi heilsugæslu HSS kom fram að stefnumörkun var ófullnægjandi, málefni húsnæðisins, mönnunar og starfsaðstöðu var ófullnægjandi, umbóta var þörf hvað varðar stjórnun, vinnubrögð og gæðastarf. Þessi skýrsla er ekki falleg en segir allt sem segja þarf um það sem þarf að laga og bæta innan heilsugæslunnar. Við þurfum nauðsynlega hjálp við að endurbyggja okkur upp og hlúa að starfsfólkinu okkar og skjólstæðingum sem til

 

okkar leita. Okkur skortir stefnu og það er mjög margt sem þarf að laga. Fyrst og fremst verða bæði framkvæmdarstjórn HSS og þingmennirnir okkar að gera sér grein fyrir því að við sinnum lífsnauðsynlegri þjónustu fyrir veikt fólk. Við erum þjónusta og eigum að vera góð þjónusta. HSS hefur allt til að bera til að vera flaggskip heilbrigðis í nærsamfélagi okkar en til þess þurfum við heljargrip að vinna. Við þurfum betri aðstöðu, aukna fjármögnun og betri mönnun.

 

Við eigum ekki skilið annars flokks þjónustu.

Við eigum skilið bestu þjónustu sem hægt er að fá í okkar nærsamfélagi.

 

Guðný Birna og Íris Kristjánsdóttir.

Deildarstjórar Slysa- og bráðamóttöku HSS.