Aðsent

Borgaraleg ferming á Suðurnesjum
Eins og flestir vita fara fermingar ekki bara fram í kirkjum.
Föstudagur 1. maí 2015 kl. 08:00

Borgaraleg ferming á Suðurnesjum

Jóhann Björnsson, formaður Siðmenntar, skrifar.

Það var ánægjulegt að fylgjast með 14 unglingum taka þátt í fyrstu borgaralegu fermingunni í mínum gamla heimabæ, Reykjanesbæ þann 18. apríl sl. Athöfnin fór fram að viðstöddu fjölmenni í sal Fjölbrautaskólans. 

Í kjölfar athafnarinnar hafa margir spurt hvað borgaraleg ferming sé? Fyrsta borgaralega fermingin fór fram hér á landi árið 1989 þegar sextán börn fermdust. Í ár eru þau 305. Borgaralegar fermingar tíðkast víðar en á Íslandi og eru sérstaklega vinsælar í Noregi. Þar fór fyrsta borgaralega fermingin fram árið 1951 og var þá Gro Harlem Bruntland, fyrrverandi forstætisráðherra Noregs, á meðal fermingarbarna. Tilgangur borgaralegrar fermingar er meðal annars að efla heilbrigð og farsæl viðhorf unglinga til lífsins með uppbyggilegri fræðslu. Á fermingarnámskeiðunum er megináhersla lögð á að efla umhugsunarvirkni barnanna með því að þjálfa gagnrýna hugsun og þátttöku í heimspekilegum samræðum þar sem meðal annars er tekist  á við ýmis siðferðileg álitamál.  

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eins og annars staðar þar sem borgaralegar fermingar tíðkast er orðið ferming notað enda hefur orðið ýmsar merkingar. Ein merking orðsins felst í að styðja og styrkja og er litið svo á að með borgaralegri fermingu sé verið að styðja og styrkja unga fólkið í að verða heilsteyptir og ábyrgir borgarar í lýðræðislegu samfélagi.

Félagið Siðmennt stendur fyrir borgaralegum fermingum og geta öll ungmenni tekið þátt burtséð frá trúar- eða lífsskoðunum.

Jóhann Björnsson

formaður Siðmenntar