Aðsent

Beint í mark
Fimmtudagur 25. júní 2015 kl. 10:55

Beint í mark

Peningamagn í umferð margfaldaðist á árunum fyrir hrun vegna útlánaþenslu bankanna. Sú stefna stuðlaði að efnahagsbólu sem síðan sprakk með hvelli. Geir H. Haarde blessaði Ísland í frægri ræðu í sjónvarpssal þann 6. október árið 2008. Í ræðunni lýsti hann þeim efnahagserfiðleikum sem Ísland stóð frammi fyrir.  Sama dag lagði hann fram frumvarp að neyðarlögum á Alþingi. Atburðarásin sem eftir fylgdi var söguleg. Bylting á Austurvelli og menn glímdu við risavaxin og algerlega fordæmalaus verkefni. 

Framsókn-flokkur heimilanna

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þingflokkur Framsóknarflokksins lagði fram nýstárlegar tillögur um hvernig koma mætti til móts við heimili og fyrirtæki landsins, með svokallaðri 20% skuldaniðurfellingu. Þær tillögur hlutu ekki hljómgrunn hjá minnihlutastjórn vinstri flokkanna sem tók við völdum þann 1. febrúar, þrátt fyrir að Framsókn hafi varið hana vantrausti á þeim forsendum að ráðist yrði í miklar aðgerðir til hjálpar heimilum og fyrirtækjum í landinu. Vinstri stjórnin ákvað hins vegar að fara 110% leiðina, sem var óráð. Kaupmáttarskerðingin almennings var gríðarleg og eignir brunnu upp.

Þrennan

Framsókn barðist ötullega gegn samþykkt Icesave samningana en vinstri stjórnin vildi endilega samþykkja þá. Ef stjórnin hefði náð vilja sínum fram hefðu núverandi og næstu kynslóðir Íslendinga þurft að taka á sig gríðarlegar fjárhagslegar byrðar í erlendum gjaldeyri sem þjóðarbúið réð engan veginn við. Það gerðist sem betur fer ekki.

Nú hefur ríkisstjórn Sigmundar Davíðs stýrt landinu í tvö ár. Staðið hefur verið við gefin loforð; stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán heimilanna voru leiðrétt og nú liggur fyrir áætlun um losun hafta. Forystumenn Samfylkingarinnar létu ítrekað hafa eftir sér að þeir teldu nánast ómögulegt að afnema höftin án upptöku evru. Svo er ekki. Sú áætlun sem nú liggur fyrir er vel unnin og flestir sem hafa tjáð sig um hana hafa líst ánægju sinni og telja hana betri en menn þorðu að vona.

Aukið svigrúm fyrir velferð

Ríkir almannahagsmunir liggja að baki afnámsáætlun stjórnvalda en hún byggist á gagnsæi og viðurkenndri aðferðafræði. Aðgerðirnar eru forsenda þess að hægt sé að afnema fjármagnshöft og fjármunir sem myndast vegna stöðugleikaskilyrða eða skatts verða nýttir til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, sem ekki eru síst tilkomnar vegna falls fjármálakerfisins.

Í dag er ríkissjóður að greiða um 80 milljarða í vexti á ári en með þessari aðgerð gæti vaxtagreiðsla ríkisins lækkað um um 35 til 40  milljarða, sem samsvarar um 75% af rekstrarkostnaði Landspítalans. Svigrúmið er til staðar og það verður nýtt til að greiða niður skuldir ríkissjóðs, öllum landsmönnum til heilla.

Nánari upplýsingar um afnám hafta má finna á:  http://www.fjarmalaraduneyti.is


Silja Dögg Gunnarsdóttir og Páll Jóhann Pálsson,

þingmenn Framsóknarflokksins.