Aðsent

Ályktun stjórnar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ
Fimmtudagur 27. júlí 2017 kl. 06:00

Ályktun stjórnar Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ

Stjórn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ fagnar þeim árangri sem núverandi meirihluti Samfylkingarinnar og óháðra, Beinnar leiðar og Frjáls afls í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, hefur náð í fjármálastjórnun bæjarfélagsins. Horfir nú til stóreflingar þjónustu bæjarins við íbúa og fyrirtæki vegna ábyrgrar fjármálastjórnunar á þessu kjörtímabili. Stjórnin fagnar sérstaklega ákvörðun bæjarstjórnar um að gera námsgögn gjaldfrjáls í grunnskólum Reykjanesbæjar frá og með næsta hausti, fjölskyldum bæjarins til heilla.

Vonir eru bundnar við það að fljótlega verði gengið frá samningum við kröfuhafa Reykjaneshafnar og segja má með sanni að þegar það er í höfn hefur grettistaki verið lyft  til lækkunar skulda sveitarfélagsins, sem er það skuldsettasta á Íslandi, og þar með reksturinn gerður sjálfbær eftir hallarekstur og óráðsíu undanfarins áratugs.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Stjórn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ fagnar ákvörðun fjármálaráðherra um að leggja niður KADECO, m.a. vegna þess að fulltrúar Reykjanesbæjar hafa ekki fengið að sitja í stjórn KADECO síðan árið 2014 þrátt fyrir að stjórn félagsins fari með ákvörðunarvald um hverfi Reykjanesbæjar. Ljóst er að þetta fyrirkomulag er verulega ósanngjarnt, svipað ef stjórnarmenn frá Reykjavík fengu að taka allar ákvarðanir um uppbyggingu og framtíðarsýn á Akranesi, sem væri fáheyrt. Þetta fyrirkomulag var mjög óskynsamlegt og ekkert mark tekið á sjónarmiðum bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir til fjármála- og forsætisráðherra. Ákvörðun ráðherra gefur nú tækifæri til enn frekari eflingar samstarfs Reykjanesbæjar við nágrannasveitarfélögin um framhald uppbyggingar Háaleitissvæðisins.

Framkvæmdir við úrbætur á Reykjanesbraut, á svæði bæjarins og víðar eru löngu tímabærar og lífsnauðsynlegar. Ljúka þarf tvöföldun brautarinnar hið allra fyrsta. Barátta bæjaryfirvalda og íbúa hefur skilað mikilvægum áföngum í umferðaröryggi með undirgöngum og hringtorgum en áfram verður að leggja allan mögulegan þrýsting á samgönguráðherra að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar sem er einn fjölfarnasti vegur landsins.

Stjórn Samfylkingarinnar í Reykjanes harmar örðugleika og hremmingar sem hafa dunið á bæjarbúum vegna gangsetningar silíkonverksmiðju United Silicon í Helguvík en síðustu átta mánuði hefur rignt inn þúsund kvörtunum frá bæjarbúum auk þess sem kviknað hefur í verinu þrisvar. Byrjunarörðugleikar versins hafa verið gríðarlegir, vandlega hefur verið fylgst með gangi mála í samstarfi við Umhverfisstofnun og þolinmæði bæjarbúa og bæjaryfirvalda er á þrotum. Samfylkingin í Reykjanesbæ gerir þá kröfu að framtíð versins verði bundin við það að öllum eftirlitsskyldum málum verði komið í lag hið fyrsta svo íbúar bæjarfélagsins megi vel við una en kísilverinu verði lokað ella. Við óbreytt ástand verður ekki búið, íbúar Reykjanesbæjar eiga ekki að þurfa að búa við skert lífsskilyrði.

Stjórn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ lýsir yfir ánægju með samstarfið við farsælan bæjarstjóra Reykjanesbæjar og fullur vilji er til þess að halda því samstarfi áfram á næsta kjörtímabili. Stjórnin tekur undir með bæjarstjóra um að til framtíðar litið sé grundvöllur til verulegrar aukningar samstarfs flestra sveitarfélaga á svæðinu og með tíð og tíma, sameiningar.

Stjórn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ hvetur bæjarbúa til að standa þétt saman með stjórn bæjarins til eflingar og þroska samfélagsins á þessum mikilvægu tímum þegar bærinn okkar er loksins að rétta úr kútnum eftir erfiða tíma. Okkur eru allir vegir færir ef bænum okkar verður áfram stjórnað af skynsemi.

Stjórn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ