Aðsent

Áherslur Pírata
Fimmtudagur 27. október 2016 kl. 20:00

Áherslur Pírata

- Aðsend grein frá Albert Svan Sigurðssyni

Píratar hafa sett sér fimm áhersluatriði fyrir komandi þingkosningar. Efst á blaði er að vinna í að lögleiða nýja stjórnarskrá. Helstu nýjungar í nýrri stjórnarskrá sem fyrir liggur eru þær að öll atkvæði skuli vega jafnt, ráðherrar skuli ekki sitja á þingi, náttúruvernd verður stjórnarskrárvarin og auðlindir verða sameign þjóðarinnar. Þetta síðasta er afar mikilvægt til að tryggja réttláta dreifingu arðs af auðlindum, sem annað áherslu atriði flokksins. Pírötum þykir ekki eðlilegt að margra milljarða arðsemi af atvinnugreinum sem nýta náttúruauðlindir skiptist eingöngu á fárra manna hendur. Við viljum að stóriðjan greiði fullt verð fyrir aðgang að orkuauðlindinni og sjávarútvegsfyrirtæki greiði markaðsverð fyrir aðgang að fiskimiðunum. Einnig vilja Píratar að þeir sem losa mengandi efni í andrúmsloftið í stað þess að setja upp fullnægjandi mengunarvarnir skuli greiða fyrir að fá að menga lofthjúpinn.

Annað sem ný stjórnarskrá hefur í för með sér er aukið beint lýðræði, þar sem hluti almennings getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin þingmál eða skotið málefnum í slíka atkvæðagreiðslu til þess að vekja Alþingi til vitundar um lýðræðislega mikilvæg mál. Þjóðaratkvæðagreiðslur verða væntanlega flestar ráðgefandi, nema Alþingi ákveði annað. Píratar styðja við íbúalýðræði í sveitarfélögum og telja að slíkt ákvæði í sveitarstjórnarlögum frá árinu 2011 sé góð lýðræðisuppbót. Efling aðkomu almennings að ákvarðanatöku er því eitt af meginmálum Pírata og rík ástæða til að styðja við nýja stjórnarskrá þess vegna.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það er spilling á Íslandi. Margar ákvarðanir yfirvalda eru leynilegar eða órekjanlegar og fólk veit í raun lítið um hvað kjörnir stjórnmálamenn eru að gera í sínu starfi. Dæmi eru um alþingismenn sem ljúka námsgráðum í háskóla á fullu þingfararkaupi. Geðþóttaákvarðanir og sérhagsmunagæsla er orðin svo föst í sessi að margir sjá ekkert að því að hygla tilteknum atvinnugreinum eða tefja lagasetningar sem íþyngja tilteknum aðilum sem þeir tengjast. Í krafti misvægis í atkvæðum hefur kjördæmapot oft kostað skattgreiðendur stórar fjárhæðir og hraðafgreiðsla getur haft afdrifarík áhrif á samfélag og umhverfi. Ráðherrar sem sinna framkvæmdavaldi ríkisins sitja á löggjafarþinginu og smíða þar reglur fyrir sjálfa sig að fara eftir. Þetta er eitt af því sem ný stjórnarskrá mun lagfæra. Spillingu á að stöðva og stöðugleika í samfélaginu þarf að tryggja með langtímaáætlunum og markmiðum. Þetta er það sem Píratar standa fyrir.


Albert Svan Sigurðsson
8. sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi