VSFK
VSFK

Viðskipti

Vildi vinna hjá sjálfum sér
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
mánudaginn 9. september 2019 kl. 06:37

Vildi vinna hjá sjálfum sér

„Skiptir máli að skapa góðan liðsanda,“ segir Halldór Guðmundsson, eigandi ræstingafyrirtækisins Allt hreint sem er með 40 manns í vinnu.

Allt hreint þjónustar fjölda fyrirtækja og stofnanir í Reykjanesbæ sem og á höfuðborgarsvæðinu. Allt hreint býður fyrirtækjum og stofnunum upp á reglubundnar ræstingar. Við áttum samtal við Halldór Guðmundsson en hann ásamt eiginkonu, Ingu Rut Ingvarsdóttur, eiga fyrirtækið Allt hreint.

Áratuga reynsla

„Ég er búinn að vinna við ræstingar í 32 ár. Ég var átján ára þegar ég byrjaði að vinna við ræstingar í flugstöðinni og hef ekki unnið á mörgum stöðum um ævina. Ég var aldrei hræddur við að henda mér í djúpu laugina en það gerði ég aðeins 20 ára þegar mér var boðið að vera vaktstjóri. Allt hreint hefur á bak við sig ræstingarfólk sem hefur áratuga reynslu af ræstingum en við leggjum sérstaklega áherslu á persónuleg samskipti við verkkaupa. Við veitum einnig alla þá aðstoð sem þörf er á, hvað varðar ráðgjöf og fleira. Þegar ég var 24 ára stofnaði ég þetta fyrirtæki því ég vildi vinna hjá sjálfum mér. Það þarf alltaf að hreinsa og þrífa alls staðar. Í dag eigum við þetta saman við hjónin en konan mín sér um skrifstofuna, launin, reikninga og innheimtu en ég sinni rekstrinum, mannaráðningum og verkstjórn,“ segir Halldór.

Misstum þetta í hruninu

„Við misstum þetta í hruninu en okkur tókst að eignast fyrirtækið aftur á átta árum og erum ánægð með reksturinn í dag. Orðspor fyrirtækisins er gott og það skiptir öllu í þessum geira. Okkur helst einstaklega vel á kúnnum og einnig starfsfólki. Starfsfólkið okkar er þjálfað í upphafi og ákveðnar verklagsreglur kenndar þeim. Það skiptir máli að allir standi sig vel. Við erum með ca 40 manns í vinnu, hörkuduglegt starfsfólk sem við erum mjög ánægð með. Hér er starfsaldur mjög hár, margir hafa unnið hjá okkur í yfir tíu ár og enn fleiri yfir fimm ár sem er ekki algengt þegar um ræstingar er að ræða, en verkstjórinn hefur til að mynda unnið hjá okkur í yfir 25 ár, en það er Andrea Karlsdóttir. Við viljum halda í starfsfólkið okkar og gerum vel við þau. Við aðlögum vinnutíma að þeim sem þurfa þess vegna leikskóla og fleira og erum með launakerfið greitt eftir dagvinnu og næturvinnu en ekki á jafnaðartaxta. Þegar við hlúum að starfsfólkinu okkar svona þá helst það betur í vinnu hjá okkur. Við höfum reynt að brjóta upp og bjóða upp á viðburði með þeim. Allt er þetta gert til þess að skapa góðan liðsanda og góða stemningu á vinnustaðnum,“ segir Halldór.

Fullt af verkefnum í dag

„Við þjónustum yfir 60 verkkaupa sem eru í föstum viðskiptum hjá Allt hreint, að stærstu leyti erum við hér á svæðinu en einn starfsmaður er fyrir okkur í Reykjavík. Í dag sinnum við eingöngu föstum þrifum hjá fyrirtækjum og stofnunum og erum hætt að taka að okkur að hreinsa nýbyggingar. Við notum umhverfisvæn efni og erum með svansvottun, eina fyrirtækið á þessu sviði hér á Suðurnesjum. Það hafa orðið svo miklar breytingar í viðhorfi almennings til umhverfisverndar að við erum ekki gjaldgeng alls staðar nema að vera með umhverfisvæna vottun. Við flytjum inn öll efni sjálf. Við erum með lager og erum mjög vel tækjum búin, það skiptir máli. Reksturinn gengur mjög vel og við erum glöð með stöðu fyrirtækisins,“ segir Halldór.