Vegurinn að heiman er vegurinn heim
Keflvíkingurinn Kristinn Skúlason opnar veitingastað og verslun undir sama þaki á Ásbrú.
„Það eru mörg tækifæri á Ásbrú og nágrenni og við erum að mæta með nýjungar sem ég er bjartsýnn á að fái góðar viðtökur,“ segir Kristinn Skúlason en hann og Drífa Dan kona hans munu opna 1. febrúar nýjan veitingastað og verslun sem ber nafnið public deli, á kunnuglegum stað eða þar sem veitingastaðurinn Langbest var síðast til húsa.
public deli er hugmynd sem hefur blundað í þeim hjónum í mörg ár og láta nú drauminn rætast. Kristinn segir þessa hugmyndafræði hafa verið að ryðja sér til rúms á Norðurlöndum og í Evrópu þar sem þjónusta á sviði veitingareksturs og matvöru er sameinuð á einum stað. Stefna public
deli sé að létta viðskiptavinum lífið með einföldum lausnum og bragðgóðum mat.
„Við getum sagt að þetta sé númtíma hverfisverslun en hún hefur verið að þróast á undanförnum árum. Við munum opna verslunina klukkan átta á morgnana en veitingastaðurinn opnar kl. 11 og svo er opið á báðum stöðum til kl. 21 á kvöldin. Við bjóðum uppá einfaldar og fljótlegar lausnir fyrir alla okkar viðskiptavini til að auðvelda þeim lífið. Þá verður einnig hægt að grípa með sér matvöru, bæði úr verslun og af veitingastað í „grab&go“. Sérstaða veitingarstaðarins er hinn víðfrægi bjórkjúklingur sem er eldaður á grind og er tilvalinn fyrir nokkra að borða saman. Hægt verður að kaupa hann af matseðli og í „grab&go“. Þá verða í boði ljúffengar hollustuvefjur, salöt og aðrir réttir eins og pítsur, hamborgarar, fiskur og franskar og fleira. Um helgar er hugmyndin að bjóða upp á bröns, þannig að þetta verður fjölbreytt og gott.“
Aftur heim
Kristinn hefur alla tíð frá því hann flutti til höfuðborgarinnar fylgst vel með þróun mála í sínum gamla heimabæ og haldið tengslum við ættingja og gamla skólafélaga. Nú er hann kominn með annan fótinn aftur heim. „Er ekki sagt að hver vegur að heiman sé vegurinn heim,“ segir Kristinn kíminn en hann steig sín fyrstu skref í hverfisverslun foreldra sinna, Skúlabúð, sem var í marga áratugi við Lyngholt í Keflavík. „Ég byrjaði snemma að hjálpa til í búðinni hjá pabba og mömmu. Svo ætlaði ég nú að verða rakari og var á leiðinni á samning á stofu í Reykjavík þegar ég kynntist stelpu sem síðar varð eiginkona mín,“ segir Kristinn og brosir þegar hann rifjar þetta upp.
Kristinn tengdist þannig verslunarbræðrum kennda við verslunina Víði en þangað lá leið hans ungur að árum, síðar vann hann um tíma í Nóatúni þangað til hann fór til Krónunnar, þar sem hann stýrði uppbyggingu í um tvo áratugi. Kristinn var áberandi í störfum þessarar stóru matvöruverslunarkeðju en eftir að hann hætti störfum þar fyrir um tveimur árum starfaði hann um tíma hjá keflvískum vini sínum sem setti upp flugeldhús í gamla „messanum“ á Ásbrú en húsnæði public deli er rétt hjá. Þá kviknaði hugmyndin sem Kristinn hefur haft í huga sínum um nokkurn tíma.
Undirbúningur að fyrirtækinu hefur staðið yfir í um hálft ár og verið nokkuð lengri en til stóð. Kristinn segir að vel hafi gengið að fá starfsfólk og mikill fjöldi hafi sótt um sem kom honum skemmtilega á óvart.
Vöxtur á Ásbrú
„Nú er komið að opnun og ég vona að Suðurnesjamenn og aðrir verði ánægðir með þessa nýjung. Þessa mánuði sem ég hef verið hér við undirbúning hef ég séð að það er mikil hreyfing á svæðinu, hér er fjöldi íbúa á Ásbrú og þá sér maður mikið af ferðafólki af hótelum að sækja og skila bílaleigubílum, þannig að þetta leggst bara mjög vel í mig hlakka mikið til,“sagði Kristinn, eða Kiddi Skúla eins og hann er jafnan kallaður.
Myndir frá opnunarhófi má sjá hér í myndasafni með fréttinni.
Vel hefur tekist til við innréttingar staðarins og verslunarinnar.
Fjölmargir gestir voru í opnunarhófi sem haldið var 30. janúar, m.a. færði Kjartan Már bæjarstjóri Kidda Skúla blómvönd.