Viðskipti

Rubix kaupir verslun og eignir Vökvatengis í Reykjanesbæ
Bjarki Sigurðsson, Árni Rúnar Ingason og Ólafur P. Hermannson. VF/Hilmar Bragi
Föstudagur 7. júlí 2023 kl. 06:00

Rubix kaupir verslun og eignir Vökvatengis í Reykjanesbæ

Rubix Ísland ehf. hefur gengið frá kaupum á verslun og eignum Vökvatengis ehf. í Reykjanesbæ. Vökvatengi hefur sérhæft sig sem sölu- og þjónustuaðili á vökva- og loftbúnaði, ásamt margskonar rekstrarvörum fyrir fyrirtæki á Reykjanesinu.

Vökvatengi var stofnað árið 1985 og er staðsett í Reykjanesbæ. Fyrirtækið býður upp á fjölbreytt úrval af vökva- og loftbúnaðarvörum, þar á meðal slöngur, rör og varahluti, ásamt viðgerðarþjónustu. Aðrar vörur sem boðið er upp á eru verkfæri, smurefni og persónuhlífar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Rubix Ísland mun njóta góðs af stækkun markaðssvæðis og sérfræðiþekkingu starfsmanna Vökvatengis. Auk þess munu viðskiptavinir Vökvatengis njóta góðs af því fjölbreytta vöru- og þjónustuúrvali sem Rubix getur boðið. Þegar líður á haustið mun verslun Vökvatengis breytast og vöruframboðið aukast með vörum frá Rubix og Verkfærasölunni.

Stofnendurnir Skúli S. Ásgeirsson og Elín Halldóra Hermannsdóttir munu nýta tækifærið og minnka við sig en reka verkstæði áfram.

„Þessi kaup styðja við metnað okkar að bjóða vörur og þjónustu okkar til allra svæða á Íslandi. Ég er ánægður með að bjóða starfsmenn, viðskiptavini og birgja Vökvatengis velkomna í Rubix-fjölskylduna og hlakka til að vinna með þeim til að byggja enn frekar á velgengni fyrirtækjanna. Saman munum við geta skapað aukin verðmæti fyrir viðskiptavini okkar og samstarfsaðila á Íslandi,“ segir Jóhann Benediktsson, framkvæmdastjóri Rubix Ísland

„Ég er ánægður með að Vökvatengi hefur fundið frábært nýtt heimili sem hluti af Rubix og ég er spenntur fyrir þeim tækifærum sem það hefur í för með sér fyrir okkar góðu og tryggu starfsmenn og viðskiptavini okkar, sem munu nú hafa aðgang að enn breiðara vöru- og þjónustuframboði,“ segir Skúli S. Ásgeirsson, stofnandi Vökvatengis.