Karlakórinn
Karlakórinn

Pistlar

Októbermánuður var býsna góður
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 3. nóvember 2023 kl. 06:00

Októbermánuður var býsna góður

Tíminn æðir áfram eins og ansi margir pistlar mínir hafa byrjað á. Þegar þessi pistill kemur þá er nóvembermánuður kominn af stað en nýliðinn októbermánuður var býsna góður aflalega séð. Það gerði reyndar eitt bræluskot sem varði í um fimm daga.

Lítum aðeins á bátana, byrjum á togurunum. Jóhanna Gísladóttir GK var með 461 tonn í sex löndunum en togarinn kom bilaður til Grindavíkur og var stopp í nokkra daga út af því er hann kominn aftur á veiðar. Þónokkurt flakk var á Jóhönnu Gísladóttir GK því togarinn landaði í Bolungarvík, Djúpivogi, Neskaupstað og heimahöfn sinni, Grindavík. Reyndar var þessi löndun í Grindavík einungis um 45 tonn sem var eftir að bilunin kom upp í togaranum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sturla GK var með 458 tonn í átta, landað á Grundarfirði, Hornafirði, Djúpivogi og Grindavík. Í Grindavík var þó aðeins ein löndun, 74 tonn.

Sóley Sigurjóns GK hætti á rækjuveiðum og hóf veiðar með fiskitrolli og var með 368 tonn í fimm löndunum á Grundarfirði og Siglufirði. Vörður ÞH 357 tonn í fjórum löndunum, landað á Djúpavogi og Grindavík, 267 tonn var landað í Grindavík. Pálína Þórunn GK var með 375 tonn í sex löndunum sem landað var á Siglufirði, Djúpavogi og 58 tonnum var landað í Sandgerði.

Frystitogarinn Hrafn Sveinbjarnarson GK kom með 680 tonn í einni löndun til Hafnarfjarðar.

Netabátarnir voru ekki margir en allir voru þeir að veiða fyrir Hólmgrím. Addi Afi GK er með 24 tonn í sautján róðrum, Sunna Líf GK 12,5 tonn í átta og Friðrik Sigurðsson ÁR var með 145 tonn í 22 róðrum. Reyndar kom annar stór bátur inn í Keflavík af og til en það var Kap VE frá Vestmannaeyjum. Báturinn kom ekki til Keflavíkur til að landa heldur til að bíða meðan netin voru í sjó því að báturinn veiddi í sig og sigldi síðan til Vestmannaeyja til þess að landa aflanum. Kap VE var með 237 tonn í fimm róðrum mest 65 tonn í löndun.

Dragnótaveiði var nokkuð góð. Siggi Bjarna GK var hæstur með 130 tonn í þrettán róðrum, Benni Sæm GK 88 tonn í tíu, Sigurfari GK 97 tonn í fjórtán og Maggý VE 78 tonn í tólf. Bæði Maggý VE og Sigurfari GK eru ekki með leyfi til að veiða inn í Faxaflóanum, eða bugtin eins og það kallast því var ansi fjölbreytt úrval af fiskitegundum hjá bátunum. Sigurfari GK var með 24 tegundir af fiski og Maggý VE var með sextán tegundir af fiski.

Ekki var neinn annar bátur á landinu með jafn margar tegundir af fiski og Sigurfari GK var með núna í október.

Línubátarnir veiddu vel, nema hvað að Valdimar GK bilaði mjög alvarlega og var aðeins með 196 tonn í tveimur róðrum. Þrír bátar náðu yfir 500 tonna afla og voru það allt Vísisbátar. Páll Jónsson GK með 558 tonn í fjórum róðrum og mest 153 tonn, Fjölnir GK 562 tonn í fimm og mest 114 tonn og Sighvatur GK 580 tonn í fjórum róðrum og mest 159 tonn. Bátarnir voru allir á veiðum fyrir austan og við Norðurlandið. Lönduðu þá á Djúpavogi og Skagaströnd, nema að Fjölnir GK kom eina löndun til Seyðisfjarðar.

Eins og sést á þessu voru Vísisbátar og togarar með um 2.100 tonna afla í október og það gengur hratt á kvótann þegar svona vel fiskast.

Af minni bátunum eru aðeins tveir bátar á veiðum á línu við Suðurnesin þegar þetta er skrifað. Þeir voru þrír en Óli á Stað GK fór norður til Siglufjarðar undir lok október en skömmu áður hafði Dúddi Gísla GK komið suður til Grindavíkur og síðan er Margrét GK frá Sandgerði en honum gekk nokkuð vel, var með um 110 tonn í fjórtán róðrum. Dúddi Gísla GK var með 69 tonn í ellefu og af því þá var um sextán tonnum landað í Grindavík.

Aðrir bátar voru t.d. Gísli Súrsson GK 184 tonn í sextán, Auður Vésteins SU 173 tonn í sextán, Sævík GK 137 tonn í sextán, Daðey GK 131 tonn í fimmtán, Hópsnes GK 118 tonn í sautján, Vésteinn GK 107 tonn í átta, Katrín GK 87 tonn í tólf, Geirfugl GK 80 tonn í fimmtán og Óli á Stað GK 71 tonn í þrettán róðrum.

Einhamarsbátarnir voru allir á veiðum fyrir austan og lönduðu að mestu á Neskaupstað. Stakkavíkurbátarnir (Hópsnes GK, Katrín GK og Geirfugl GK) voru á Siglufirði, Daðey GK var á Skagaströnd og Sævík GK byrjaði fyrir norðan, kom síðan til Sandgerði og fór þaðan austur og landaði alls í sex höfnum í október.