Karlakórinn
Karlakórinn

Pistlar

Dapurlegt að ekki sé fiskimjölsverksmiðja á Suðurnesjum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 27. október 2023 kl. 06:01

Dapurlegt að ekki sé fiskimjölsverksmiðja á Suðurnesjum

Frá því síðasti pistill kom þá hefur nú ansi lítið verið um að vera í sjósókn frá Suðurnesjum. Miklar brælur voru og bátar komust lítið sem ekki neitt á sjóinn. Dúddi Gísla GK kom frá Skagaströnd og hóf róðra frá Grindavík, Margrét GK og Óli á Stað GK eru í Sandgerði en vegna veðurs þá komust þeir ekkert á sjóinn í um fimm daga.

Í síðasta pistli skrifaði ég nokkuð um bilanir en Valdimar GK bilaði ansi alvarlega og er báturinn kominn upp í slipp í Njarðvík. Á sama tíma kom nýjasti báturinn frá Stakkavík ehf. til Helguvíkur, Margrét GK.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Margrét GK var ekki eini nýi báturinn sem kom á flot, því annar bátur var sjósettur í Póllandi og sá bátur á smá tengingu við Grindavík.

Árið 1946, þá á Grenivík, var stofnað fyrirtækið Gjögur og keypti þá fyrirtækið tvo báta sem hétu Vörður TH 4 og Von TH 5. Þarna á þessum tíma voru notaðir stafirnir TH í umdæmismerki bátanna en um tíu árum síðar breyttust þessir stafir í ÞH og eru ÞH stafirnir notaðir enn þann dag í dag.

Gjögur ehf. er ennþá til og tók við rekstri frystihússins á Grenivík en er líka með fiskvinnslu í Grindavík og gerir út tvo 29 metra langa togara sem heita Áskell ÞH og Vörður ÞH.

Þó svo að bátarnir séu ÞH og skráðir á Grenivík þá hefur Grindavík verið svo til aðallöndunarhöfn bátanna sem Gjögur á, fyrir utan einn bát, það er uppsjávarskipið og loðnubáturinn Hákon ÞH 250. Árið 2001 kom til landsins uppsjávarskip sem hét Hákon EA 148 og er þessi bátur ennþá gerður út af Gjögri, þangað til núna því að nýr Hákon ÞH 250 var sjósettur í Póllandi og mun sá bátur leysa af Hákon ÞH sem kom árið 2001. Báðir bátarnir eru svipað langir, eða um 76 metra langir, sá gamli er 14,4 metra breiður en nýi er 16,5 metra breiður og er með töluvert meiri burðargetu.

Loðnubáturinn Hákon ÞH á sér töluvert langa sögu hérna á landinu en þó svo að fyrirtækið Gjögur ehf. hafi sterka tengingu við Grindavík varðandi bolfiskinn þá er ekki það sama sagt um uppsjávarfiskinn, sérstaklega núna á þessari öld því eftir að fiskimjölsverkmiðjan í Grindavík brann hefur engum uppsjávarfiski verið landað þar.

Svo þessi litla tenging Gjögurs við Grindavík og þar með Suðurnesin í formi Hákons ÞH mun líklega aldrei koma inn í höfn á Suðurnesjunum, nema kannski Helguvík ef verksmiðja verður ræst þar aftur.

Gamli Hákon ÞH og líka sá sem var á undan honum lönduðu ansi mikið í Helguvík og reyndar var gamli Hákon ÞH, sem var smíðaður árið 2001, með frystibúnað um borð og gat því fryst loðnu, makríl og síld og landaði þá þeim afla frosnum í Reykjavík enn hratinu var landað í Helguvík.

Varðandi Helguvík þá má segja að það sé endanlega búið að slökkva algjörlega á því að þar muni verða bræddur uppsjávarfiskur því núna í sumar var búnaðurinn í Helguvík seldur til Marokkó og eins og ég hef áður getið þá mjög dapurlegt og í raun frekar fáranlegt að ekki sé fiskimjölsverksmiðja á Suðurnesjum, því jú þar var nú í fyrsta skipti brædd loðna þegar bræðslan í Sandgerði tók á móti fyrstu loðnunni til bræðslu fyrir um 60 árum síðan.