Mannlíf

WOWlandair
Laugardagur 10. nóvember 2018 kl. 07:00

WOWlandair

Lokaorð Örvars Þórs Kristjánssonar eru á „flugi“

Það má með sanni segja að þessi fréttavika hafi byrjað með stórum hvelli þegar fjölmiðlar tilkynntu um kaup Icelandair Group á WOW air. Frekar óvænt verður að segjast þar sem Icelandair hafði blásið þessar pælingar af fyrr í haust en að mati flestra eru þetta þó mjög jákvæð tíðindi enda afar dökkt ský svifið yfir WOW air í allt haust. Þá sérstaklega eru þetta jákvæð tíðindi fyrir ferðaþjónustuna hér á landi en fjárhagserfiðleikar WOW Air og rekstrarvandræði Icelandair hafa mikið verið í umræðunni upp á síðkastið sem hefur skapað talsverða óvissu hjá ferðaþjónustunni.

Skúli Mogensen stofnaði WOW air í nóvember 2011 og á að mínu mati mikið hrós skilið fyrir allt það sem félagið náði þó að áorka á þessum sjö árum. Ótrúlegur vöxtur og mikið ævintýri hjá félagi sem hefur átt stóran þátt í uppsveiflu síðustu ára, það vitum við hér fyrir sunnan. Þetta mál skiptir okkur Suðurnesjamenn nefnilega gríðarlega miklu máli því hér á svæðinu hafa bæði flugfélögin skapað verulegar tekjur, mikla atvinnu og gríðarlega fólksfjölgun sem hefur haft mjög jákvæð áhrif á svæði sem varð fyrir miklum höggum á árunum 2006–2011. Mörgum erfiðum spurningum varðandi kaupin og framhaldið er ósvarað en ættu að koma í ljós á næstu vikum og mánuðum. Reyndar á eftir að fá samþykki hluthafafundar, samþykki Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar áður en af þessu öllu verður en samkvæmt sérfræðingum ætti það að vera formsatriði.  

Stóra spurningin fyrir okkur á svæðinu er hvaða hagræðingar ætla stjórnendur að fara í eftir kaupin? Fyrirtæki sem hafa verið að þjónusta WOW, halda þau sínu eða taka þjónustufyrirtæki Icelandair við þeim verkefnum? WOW air leigir t.d. allan sinn flugflota. Ætlar nýtt félag að halda öllum vélum eða fækka í flotanum? Fækka áfangastöðum? Fjölga? Forstjóri Icelandair talar a.m.k. um að það „séu mikil tækifæri“ til hagræðingar sem bendir til þess að nokkur fjöldi starfa hér á svæðinu gætu jafnvel tapast og einhver fyrirtæki orðið undir eða þurft að draga verulega saman seglin. Stóra spurningin er einfaldlega með hvaða hætti þessar hagræðingar verða, margir sem bíða óþreyjufullir eftir þeim svörum. Persónulega vil ég sjá nýtt félag sækja fram, stækka og eflast. Fylgja t.d. eftir Asíudraumum sem WOW stefndi að en það er spennandi verkefni. Það er a.m.k. nokkuð ljóst að næstu vikur verða afar fróðlegar en það er þó kristaltært að þessi lending á málunum er mun betri heldur en sú að WOW air færi á hausinn eins og svörtustu spár gerðu jafnvel ráð fyrir. Áhrifin af því hefðu verið hræðileg sérstaklega hérna fyrir sunnan og miðað við það sem Gróa á Leiti segir þá stefndi félagið í þrot fljótlega. Það er nefnilega gríðarlega mikið undir í þessum bransa, ferðaþjónustan gegnir mikilvægu hlutverki fyrir hagkerfið og vonandi verður núna til stórt og öflug flugfélag sem sér til þess að flugsamgöngur til og frá landinu séu í traustum skorðum. Félag sem tryggir það að íslensk ferðaþjónusta verði áfram grunnstoð í hagkerfinu og haldi áfram að vaxa og dafna. Það skiptir okkur öll gríðarlega miklu máli, þó sérstaklega hér á Suðurnesjunum.