Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Varð þátttakandi í stað áhorfanda
Jóhanna Helgadóttir.
Laugardagur 18. október 2014 kl. 10:00

Varð þátttakandi í stað áhorfanda

Glímdi við námserfiðleika og berst fyrir fjölbreyttara námi.

Jóhanna Helgadóttir var valin lesandi ársins í Reykjanesbæ á bókasafnsdeginum fyrr í haust. Menntamálaráðherra stóð upp á opnum fundi í Hljómahöllinni og klappaði fyrir Jóhönnu þegar hún sagði hvernig væri hægt að bæta menntun barna.

Í umsögn um Jóhönnu sem lesanda árssins var hún sögð einn af dyggustu viðskiptavinum safnsins og sérlega dugleg við að kynna börnum bækur og lestur, ekki bara sínum eigin heldur nemendum sínum í grunn- og leikskólum Reykjanesbæjar. Jóhanna er lærður kennari og stýrir þróunarverkefni á leikskólanum Hjallatúni. Stórnendur þar sóttu um styrk til Manngildissjóð 2013-2014 fyrir stöðu Jóhönnu en fengu neitun. Því var ákveðið að búa til svigrúm til þess að ráða hana inn vegna mikilvægis verkefnisins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jóhanna við afhendingu viðurkenningarinnar.

Ekki eins misheppnuð og hún hélt
„Ég kynntist fjölgreindarkenningunni í kennaranámi mínu. Ég uppgötvaði að ég var ekki eins misheppnuð og ég hélt. Mér fannst ég áður aldrei vera góð í neinu og fannst sniðugt hvernig þeir settu þetta upp. Maður gat verið góður í einhverju ákveðnu og það var allt í lagi að vera ekki sleipur í öllu,“ segir Jóhanna. Mörg börn séu ekki endilega sterk í fögum sem lögð er áhersla á og því þurfi að finna út hvar þau séu sterk og hvar þau geti bætt sig. „Ef börn eru t.d. mjög áhugasöm með að fara á útisvæði þá finnum við leið til að koma t.d. lestrinum í umhverfis- eða líkams- og hreyfigreind. Ef við teljum þau þurfa eitthvað ákveðið þá tengjum við það við aðra greind og viðkomandi leysir það þannig með styrkleika barnsins.“



Átti ekki upp á pallborðið hjá fræðslustjórn RNB
Jóhanna hefur fundið frá því að hún kom til starfa hjá Hjallatúni að hugmyndafræði sem unnið er með þar hefur ekki átt upp á pallborðið hjá fræðslustjórn Reykjanesbæjar vegna þess að hún hefur ekki þótt viðurkennd leið til þess að ná þeim markmiðum sem framtíðarsýnin þeirra er. „Verkefnið hefur þó gengið mjög vel og við höfum fengið fína umsögn. Komið var frá Námsmatsstofnun að ósk Reykjanesbæjar og leikskólinn var tekinn út. Útkoman var, mörgum að óvörum, mjög góð,“ segir Jóhanna. Hún á eiginmann og þrjú börn og hefur alltaf verið í 70% starfi til þess að geta haft svigrúm til að taka að sér verkefni eins og heimakennslu og aðstoða nemendur af erlendum uppruna.  

„Af hverju stígur þetta fólk ekki fram?“
Um tíma hefur Jóhanna bloggað fyrir vefmiðilinn Grunnskólakennarinn og einnig skrifað dagbók síðan fyrir fermingu. „Ég á bunka af dagbókum. Hef verið með pælingar tengdar reynslu minni og af kennarastarfinu og þessa sýn sem ég hef á það. Mér finnst ganga svo seint að koma nýjum hugmyndum inn í skólana. Þeir eru íhaldssamir og lítill meðbyr fyrir einhverju nýju. Hér á Hjallatúni er t.d. verið að fara aðra leið en hinir leikskólarnir en samt verið að ná sama markmiði,“ segir Jóhanna sem vill sjá skólana sýna vilja í að prófa að fara aðeins út fyrir sinn ramma. Oft sé talað hlutfall nemenda sem ekki gátu lesið til skilnings eða ánægju og brottfall og slíkt. „Af hverju stígur þetta fólk ekki fram og segir hvers vegna það hætti? Maðurinn minn er svona brottfall en í dag er hann með meistaragráðu í tölvunarfræði. Sumir spá ekki hvernig þessum einstaklingum líður, hvaða bakgrunn þeir hafa sem gæti hafa haft áhrif. Þetta er hægt en aðstæður eru misjafnar hjá fólki. Það þarf að virkja það með annarri nálgun. Þess vegna fór ég að tjá mig um þetta.“

Ráðherra stóð upp og klappaði
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hélt opinn fund í Reykjanesbæ fyrr í haust um það hvernig hægt væri að bæta menntun barna. Þar var mjög breiður og fjölbreyttur hópur, m.a. foreldrar skólabarna. Jóhanna greip tækifærið, stóð upp og sagðist einfaldlega vita hvað þarf að gera til að bæta menntunina en hún fái ekki tíma til þess í skólakerfinu eins og þar er. Hún sagði einnig sína sögu sem hreyfði heldur betur við viðstöddum og ráðherrann stóð upp og klappaði fyrir henni. „Eitt af því sárasta sem ég horfi upp á er að vita hvað ég þarf að gera til að hjálpa en hafa ekki tíma eða svigrúm til þess. Þess vegna hef ég í mínu starfi búið til tíma til þess. Ég kalla í einstaklingana áður en ég fer heim og fæ þá til að lesa fyrir mig.“ Foreldrar barna hafa þakkað Jóhönnu fyrir að gefa von á stöðum þar engin von var. „Oft hafa slíkir einstaklingar fengið að heyra setningar eins og: Þú ert ekki að fara í menntaskóla, ekki vera að stressa þig á þessu. Þú ferð að gera eitthvað allt annað,“ segir Jóhanna og bætir við að í staðinn hefði verið hægt að sækja í krafta þeirra og koma þeim á rétta staði. Á fundi með menntamálaráðherra hefði einn kennari í FS staðið upp og sagt: „Krakkarnir eru búnir að vera 10 ár í grunnskóla, af hverju er ekki búið að hjálpa þeim á þessum 10 árum að finna áhugasvið sín? Jóhanna segist hafa verið þessu hjartanlega sammála. „Það er eins og að fólk vilji ekki heyra það sem satt er.“

Jóhanna ásamt föður sínum, Helga málara.

Ómenntaðir foreldrar
Foreldrar Jóhönnu eru báðir ómenntaðir eins og flestallt fólk í hennar fjölskyldu. Foreldrar hennar voru 17 og 18 ára þegar þau áttu hana, faðir hennar vann mikið og móðir hennar reyndi að hjálpa með því að þylja henni yfir samviskusamlega. „Pabbi hvatti mig alltaf til að fara í nám, sagði að það yrði lykillinn að framtíðinni. Sjálfur fór hann síðar í nám þegar gerð vara krafa um að fá sér réttindi sem löggiltur málari. Þá var ég farin að hjálpa honum og það var eftirminnilegur og góður tímar fyrir okkur bæði. Námið reyndist honum erfitt og hann náði ekki bóklegu fögunum og fékk ekki réttindin. Þá var gert raunfærnimat (gamla ráðherrabréfið) og hann er því með réttindi sem málari,“ segir Jóhanna.

Fékk sjokk í FS
Sjálf náði Jóhanna ágætum árangri í samræmdu prófunum eftir að hafa nýtt sér Stoð á vegum kennara eftir skóla. „Þegar ég svo kom í FS fékk ég pínu sjokk vegna stökksins og féll í einum áfanga. Ég skammaðist mín fyrir að sitja sama áfangann aftur og mætti ekki í fyrsta tímann. Þá sótti kennarinn, Ægir Sigurðsson, mig fram á gang og sagði: Það skiptir ekki máli hvað þér finnst. Þú situr þennan áfanga aftur!“ Jóhanna útskrifaðist sem stúdent og var sú fyrsta af afkomendum hjá móðurömmu sinni sem náði þeim árangri.  

Engin háskólamenntuð fyrirmynd
Jóhanna segir að boðberahlutverkið geti verið mjög slítandi. „Ég stend með mér og því sem ég vil standa fyrir. Hef oft spurt sjálfa mig hvernig ég hef farið að þessu. Einu sinni spurði kennari mig hverslags heimskingi ég væri, þegar búið var að margsýna mér eitthvað efni. Ég var áhorfandi í grunnskóla og FS, ekki þátttakandi. Ég rétti aldrei upp hönd.“ Þegar Jóhanna útskrifaðist úr FS fannst henni liggja beint við að fara í háskóla og langaði að fara í kennaranám. „Þá var krafa um inntökupróf og ég treysti mér ekki í það og fannst ég líka ekki geta orðið góður kennari. Ég átti enga háskólamenntaða fyrirmynd nema kennarana mína. Ég skráði mig í líffræði og hætti eftir eina önn og fór að vinna í fimm ár.“

Þegar Jóhanna sneri aftur til náms voru inntökuprófin ekki lengur í kennaranámið. „Þá var kominn kjarkur í mig og ég fór á opna kynningu og pabbi með mér. Það styrkti mig.“ Jóhanna kláraði námið og upplifði mikla sigurvegaratilfinningu. „Amma kom við útskriftina og sá einhvern í fyrsta skipti útskrifast úr háskóla. Í dag hafa fleiri frændsystkini mín lokið stúdents- og háskólaprófi, sem er mjög ánægjulegt. Í náminu í KHÍ lærði ég einfaldlega að vera til og lifa lífinu. Þar varð ég loks þátttakandi,“ segir Jóhanna að endingu.

VF/Olga Björt