Karlakórinn
Karlakórinn

Mannlíf

Siggi Hérastubbur bakar meira í kringum fermingarnar
Elsti sonur Sigga, Enok Steinar og Siggi.
Sunnudagur 2. apríl 2023 kl. 06:23

Siggi Hérastubbur bakar meira í kringum fermingarnar

Fjölskyldufyrirtækið bakar langt út fyrir Grindavík. Eigandinn harður aðdáandi enska liðsins Arsenal.

„Fermingarnar eru sem betur fer ekki allar á sama tíma á Íslandi, um þarsíðustu helgi byrjaði törnin hjá okkur en við erum að senda kökur og tertur nánast út um allt land, mest þó á Suðurnesin og höfuðborgarsvæðið. Við sinnum auðvitað Grindavík vel líka,“ segir Sigurður Enoksson, bakarameistari í Grindavík og eigandi bakarísins Hérastubbs.

Siggi er frá Grindavík, hann hefur vaknað fyrir allar aldir síðan hann stofnaði bakaríið árið 1995 og gaf því nafnið Hérastubbur bakari. Börnin hans eru að feta sömu slóð og Hrafnhildur dóttir hans hefur meira að segja bætt við sig, er bæði Konditor- og súkkulaðimeistari. Siggi sendir bakkelsi nánast út um allt land og verður heldur betur upptekinn næstu vikur vegna ferminga. Ef hann er ekki að hnoða deig, er hann að sinna einu af áhugamálunum sínum sem er liðið hans í Englandi, Arsenal en hann hefur gegnt formennsku í Arsenalklúbbnum undanfarin ár.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Siggi var búinn að standa vaktina síðan fjögur um nóttina þegar blaðamann Víkurfrétta bar að garði. „Mér fannst athyglisvert í innslagi í Suðurnesjamagasíni um daginn þar sem ung stúlka sem á köku ársins var umfjöllunarefnið, að hún mætir alltaf klukkan sjö. Það telst ekki snemmt í veröld bakarans en eflaust eru aðrir bakarar í því bakaríi mættir fyrr. Ég hef nánast alltaf vaknað rétt fyrir fjögur og er byrjaður að baka klukkan fjögur. Venjulega er ég að vinna fram að hádegi eða rétt yfir, þó er meira álag núna vegna ferminganna. Þegar ég kem heim fæ ég mér alltaf blund í tvo til þrjá tíma, oft sofnaður um þrjúleytið og sef til sex. Ef ég ætla að geta horft á landsleik eða gert eitthvað um kvöldið, verð ég að gera þetta. Ef ég svindla á þessu  er ég nánast dauður á næsta degi. Þetta kemst auðvitað upp í rútínu en svo er athyglisvert um helgar þegar ég þarf ekki að vakna svona snemma, að þá er ég samt vaknaður tiltölulega snemma, ég kann ekki að sofa út.“

Kálfaskinn eftirminnileg gjöf

Siggi man vel eftir sínum fermingardegi. „Ég er fæddur árið 1965 og fermdist 1979. Föðursystir mín á stelpu sem er jafngömul mér og veislunum var slegið saman, það var algengt á þessum árum. Veislan var haldin í sal í Hafnarfirði, mömmurnar þurftu ekkert að baka eða slíkt, við bara mættum og fórum. Það sem er eftirminnilegast úr veislunni er ein gjafanna en ég fékk kálfaskinn frá frænku minni. Það var hægt að nota skinnið sem mottu eða hengja á vegg en þetta var eins og af indjánahesti, mér fannst þetta svakalega svalt. Ég minnist þess ekki að hafa fengið mikla peninga í fermingargjöf, þetta var öðruvísi á þessum tíma, alls kyns gjafir gefnar frekar,“ segir Siggi.

Hér má sjá úrval af fermingartertum Hérastubbs.


Það verður lokað í Hérastubbi í kringum páskana sem er óvanalegt.

„Það eru venjulega þrír fermingardagar hér í Grindavík. Það verður breyting hjá okkur núna um páskana, ég ætla að hafa lokað frá Skírdegi fram á þriðjudag eftir páska, það er nauðsynlegt að gefa starfsfólkinu smá frí eftir svona törn. Það vinna tólf manns hjá mér, allt frábært starfsfólk.“

Arsenalterta?

Siggi hefur alltaf verið dyggur stuðningsmaður Arsenal liðsins í ensku knattspyrnunni og tók við formennsku í stuðningsmannaklúbbnum árið 2006. „Nei, ég er ekki búinn að setja kampavínið í kæli og ekki heldur búinn að íhuga hvernig kampavín ég muni kaupa. Ef til þess kemur að Arsenal vinni deildina þá mun ég ekki einu sinni kaupa kampavín en ég mun hugsanlega hnoða í nýja köku - Arsenal kökuna, kannski að kampavín verði partur af uppskriftinni. Ég held mér samt algerlega á jörðinni, þetta lítur vel út núna en það er mikið eftir af mótinu. Þessi enska deild er svo sterk, liðin ganga aldrei að neinum úrslitum vísum, sérstaklega ekki á útivelli. Ég er búinn að vera formaður klúbbsins síðan 2006 og þegar mesta álagið er poppar stundum upp hugsun um að gott yrði að stíga frá borði á toppnum, ef við vinnum deildina núna. Þetta er bara svo gaman og gefandi, ég held ég muni taka nokkur ár í viðbót. Ég næ að fara á nokkra leiki á hverju tímabili, það er með því skemmtilegra sem ég geri,“ sagði Siggi að lokum.