Mannlíf

Margrét Jóna með sína fyrstu einkasýningu
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 24. nóvember 2021 kl. 14:09

Margrét Jóna með sína fyrstu einkasýningu

Njarðvíkingurinn Margrét Jóna Þórhallsdóttir opnar sína fyrstu myndlistarsýningu í Litla Gallerý, Strandgötu 19 í Hafnarfirði helgina 26.- 28. nóvember. Sýningin ber yfirskriftina „Jafnvægi“. 

„Í lífinu er mikilvægt að finna, ná og halda jafnvægi,“ segir Margrét Jóna. Hennar leið til að finna jafnvægi er að njóta náttúrunnar, gefa litlu hlutunum gaum og lifa í núinu. „Við megum ekki gleyma því að staldra við og líta í kringum okkur. Í verkunum vinn ég með fjöruborð og steina, leik mér með línur, liti og lífræn form. Til að myndbyggingin verði þægileg og spennandi fyrir augað reynir ég að ná fram ákveðnu jafnvægi,“ segir Margrét.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Verkin eru unnin með akríl og olíu og leikur hún sér að því að taka það smáa og stækka upp til að ná fram annarri upplifun.

Margrét Jóna er fædd árið 1976 og ólst upp í Njarðvík. Hún útskrifaðist sem stúdent af mynd- og handmennta braut frá Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 1998. Margrét Jóna lauk námi, sem myndmenntakennari frá Kennaraháskólanum árið 2005 og af Hönnunarbraut frá Iðnskólanum í Hafnarfirði árið 2015. Hún hefur unnið sem myndmenntakennari bæði í leik- og grunnskólum. Margrét Jóna hefur sótt nokkur námskeið í olíumálun þar á meðal hjá Þuríði Sigurðardóttur. 

https://www.litlagallery.is/