Public deli
Public deli

Mannlíf

Klemenz fór tuttugu ferðir á Þorbjörn
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 15. september 2023 kl. 06:34

Klemenz fór tuttugu ferðir á Þorbjörn

Klemenz Sæmundsson sem varð sextugur 4. september, stóð við stóru orðin á laugardaginn en þá fór hann tuttugu ferðir á Þorbjörn. Hver ferð upp og niður er þrír kílómetrar og tuttugu ferðir því 60 km.

Fjölmargir hlupu eða löbbuðu með Klemenz sem fór fyrstu ferðina kl. sjö um morguninn. „Ég kom niður úr tuttugustu ferðinni um hálf átta um kvöldið, þá voru um tvö hundruð manns búnir að hlaupa eða labba með mér. Það fór auðvitað tími í að stoppa og tala við fólkið, það vildi taka myndir og slíkt. Ég var á bilinu 28 til 35 mínútur með fyrstu tíu ferðirnar og 40 til 45 mínútur með seinni helminginn. Eftir tólf ferðir fór ég aðeins að stífna upp en þá hugsaði ég með mér að hafa bara gaman af þessu, hægja ferðina og njóta. Eftir það gekk þetta mjög vel, ég var aldrei þannig að ég væri alveg búinn á því og síðustu þrjár ferðirnar voru æðislegar, þá var adrenalínið komið á fullt og stutt í endamarkið. Ég hefði alveg getað haldið áfram á þeim tímapunkti en ef ég hefði verið að fara 70 kílómetra hefði staðan verið önnur. Þetta er svo mikil hugarleikfimi líka því maður kemur alltaf að erfiða kaflanum, við getum alltaf gert meira en við höldum og það þarf að halda jákvæðninni allan tímann.“

Optical Studio - 7. júlí
Optical Studio - 7. júlí

Ef einhver hefði haldið að hlaupagarpurinn se

xtugi hefði bara lagst fyrir um kvöldið, þá er það misskilningur því þá tók við afahlutverk hjá okkar manni. „Ég komst ekki í heita pottinn fyrr en daginn eftir og er bara ágætlega á mig kominn núna, pínu stífur en það er bara eðlilegt.

Annars var þetta æðislegur dagur, mér fannst mjög gaman að sjá hvað fólki sem hafði ekki áður komið á Þorbjörn, fannst þetta æðisleg gönguleið. Þegar svona bjart er eins og á laugardaginn, er útsýnið þarna uppi alveg stórkostlegt og ég er nokkuð viss um að þeir sem komu á laugardaginn munu labba aftur á Þorbjörn. Ég er ofboðslega þakklátur og vil koma sérstökum þökkum til Grindavíkurbæjar, Nettó, Brims, Víkur-frétta, Arnarlax, Vísis hf og Markó partners. Ég hefði líklega ekki getað þetta án Pálma Ingólfssonar vinar míns og tengdasonanna tveggja. Svo vil ég auðvitað þakka konunni minni og dætrunum þremur. Síðast en ekki síst ber að þakka þeim sem hafa heitið á mig, það er búið að safnast hátt í milljón, gaman yrði að komast yfir hana og þeir sem vilja ennþá heita á mig, geta gert það með því að leggja á þennan reikning: 0123-15-123439, kt. 040963-2359.