Karlakór Kef vortónl
Karlakór Kef vortónl

Mannlíf

Jóhann með besta saltfisk Evrópu
Jóhann Reynisson í Noregi
Fimmtudagur 24. janúar 2013 kl. 11:03

Jóhann með besta saltfisk Evrópu

Rétturinn birtist í tímariti vínframleiðandans Masi

Keflvíkingurinn Jóhann Ingi Reynisson, yfirmatreiðslumaður á Rica Seilet hótelinu í Molde í Noregi sigraði á dögunum keppni um frumlegasta og besta saltfiskrétt Evrópu. Keppnin var haldin á vegum Masi vínframleiðandans sem gefur út tímarit sem gefið er út víðs vegar um heim. Í verðlaun hlaut Jóhann birtinguna á réttinum í tímariti Masi, Le Venezie. Útfærslan á rétti Jóhanns var með portúgölsku nútíma ívafi.

„Mér datt strax þessi réttur í hug og hvernig ég gæti útfært hann á nýjan máta. Ég fékk þá hugmynd að elda ekki saltfiskinn í sósunni eins og alltaf er gert, heldur grilla hann og hafa hann með papríku strimlum og tómat cavíar sem ég lagaði sjálfur,“ sagði Jóhann í samtali við Víkurfréttir. Hann hefur ásamt fjölskyldu sinni búið í Molde í fjögur ár en hann hóf störf á Rica Select hótelinu árið 2010. Hann tók yfir sem yfirmatreiðslumaður á hótelinu í byrjun árs 2011. Hann segist hafa eldað réttinn á annan hátt áður.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Áður starfaði Jóhann á Quality Alexandra Hotel þar sem hann sá algjörlega um a la carte veitingarstaðinn á hótelinu. Jóhann segist hafa gaman af því að taka klassíska rétti og nútímavæða þá. Núna er hann t.d. að vinna í íslenska hangikjötinu og prófa sig áfram. Hótelið sem Jóhann starfar á er stærsta ráðstefnuhótelið milli Þrándheims og Bergen. Þar eru 225 herbergi og 15 ráðstefnusalir á 15 hæðum. Mest geta verið 1500 manns í mat á hótelinu.

Hótelið sér um mat á alla heimaleiki hjá Molde fótboltaliðinu en það gera um 500 máltíðir í hverjum heimaleik. Öll lið sem Molde spilar við í norsku deildinni og Evrópukeppninni gista og eru í mat hjá Jóhanni á hótelinu. Þar er því óhætt að segja að það sé sjaldan rólegt í eldhúsinu. „Ég er búinn að fá til mín þrjá Íslendinga í eldhúsið til að auka gæði á matnum,“ segir Jóhann og bætir því við að Norðmenn geri miklar kröfur um gæði og hafi yfir höfuð mikinn áhuga á mat.

Réttur Jóhanns: Grillaður saltfiskur með svörtum ólífum, blaðlauk, hvítlauk, grænni og gulri papriku, túneruðum möndlu kartöflum og tómat kavíar. Rétturinn er nú á matseðli hótelsins út janúar í það minnsta.