Þú tryggir ekki eftir á
Ertu undirbúin/n fyrir óvænt neyðarástand?
Rauði krossinn er að standa fyrir námskeiði þar sem viðbrögð við óvæntu neyðarástandi eru kennd. Suðurnesjabúar hafa upplifað neyðarástand varðandi náttúruhamfarir að undanförnu og hefst námskeiðahaldið hér en stefnt er að því að halda það út um allt land. Svona námskeið eru haldin úti í heimi en þar eru náttúruhamfarir ekki brennidepillinn heldur ógn af stríði. Námskeiðið í Reykjanesbæ verður verður haldið fimmtudaginn 8. maí og verður haldið í húsakynnum Rauða krossins að Smiðjuvöllum 9.
Leiðbeinandi er Jakob Smári Magnússon, hann fór yfir hvað kennt verður á námskeiðinu.
„Þetta námskeið gengur í raun út á hvernig hver manneskja, hver fjölskylda, getur undirbúið sig sem best þegar skyndilegt neyðarástand skapast. Hér á Íslandi eru það náttúruhamfarir sem þarf að bregðast við en svona námskeið eru haldin út um allan heim en þar er meira verið að gera ráð fyrir neyðarástandi vegna stríðs. Hvað gerir maður ef það verður rafmagnslaust eða heita vatns laust í þrjá daga, fólk á Suðurnesjum lenti í því í fyrra og Grindvíkingar hafa auðvitað þurft að glíma við náttúruna síðan í nóvember ´23. Ástæða þess að við tölum um þrjá daga, það mæðir mest á björgunarsveitarfólki og viðbragðsaðilum í byrjun neyðarástands og því mjög mikilvægt að fólk geti bjargað sér sjálft til að byrja með. Úti í heimi, t.d. í Noregi er miðað við að fólk þurfi að geta bjargað sér í sjö daga.
Við munum halda þetta námskeið út um allt land en töldum gott að byrja hér á Suðurnesjum því hér hefur skapast neyðarástand að undanförnu. Við viljum líka eiga samtalið við fólkið á svæðinu, viljum heyra frá fólki hvað það telur að hefði mátt gera betur. Þetta snýst kannski mest um að vekja fólk til umhugsunar almennt, það gildir kannski í þessu eins og gamli frasinn í tryggingunum, „þú tryggir ekki eftir á.“ Þegar neyðarástand skapast er mjög gott að geta gripið í áætlun og vita nákvæmlega hvernig best sé að bregðast við því það getur allt gerst. Hvernig get ég best undirbúið mig og mína fjölskyldu?
Þetta verkefni Rauða krossins hófst fyrir tíu árum en náði aldrei almennilegu flugi. Við ákváðum að keyra þetta aftur í gang síðasta haust því við sáum að þörf er á vakningu í þessum málefnum. Fólk hér á Suðurnesjum lenti í miklum vandræðum þegar heita vatnið fór af svæðinu í nokkra daga, fólk í Grindavík hefur heldur betur fengið að kenna á náttúrunni, fólk fyrir vestan og austan býr við snjóflóðahættu og svona mætti lengi telja. Við munum kenna fólki hvað það þýðir að vera undirbúinn, hversu mikilvægur undirbúningur er fyrir samfélagið og við kennum fólki að nota andlegar, félagslegar og hagnýtar leiðir til að takast á við neyð,“ segir Jakob Smári.
Námskeiðið fer fram fimmtudaginn 8. maí frá kl. 18-19 og fer fram í húsakynnum Rauða krossins í Reykjanesbæ á Smiðjuvöllum 9.