Mannlíf

Grindavík  tekur vel á móti gestum Reykjadals
Miðvikudagur 5. ágúst 2020 kl. 07:00

Grindavík tekur vel á móti gestum Reykjadals

Reykjadalur, sem starfrækir sumarbúðir fyrir fötluð börn og ungmenni í Mosfellsdal, hafa boðið upp á sumardvöl fyrir fatlað fólk í Grindavík í sumar. Dvölin gengur undir nafninu „Sumarfrí Reykjadals“ og fer fram á GEO hótelinu í Grindavík. Reykjadalur bauð þangað fólki með fötlun á aldrinum 21 til 35 ára og hefur dvölin gengið mjög vel. „Við fréttum af þessu frábæra hóteli á lausu í sumar, könnuðum málið og það var tekið ofsalega vel í beiðnina okkar,“ sagði Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðukona Reykjadals.

Boðið er upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá á meðan á dvölinni stendur. Á daginn er spilað, farið í leiki og föndrað. Allir dagar enda síðan á kvöldvöku. Einnig hefur verið farin ferð í Bláa lónið vikulega og kíkt á söfn í Reykjanesbæ.

Public deli
Public deli

„Ég hugsa að kvöldvökurnar séu oftast á toppi listans hjá gestunum en þá erum við oft aðeins að fíflast í starfsfólkinu. Þá halda þau hæfileikakeppni eða „Reykjadalur got talent“ eins og þau kalla það, blanda ógeðsdrykki, setja upp leikrit, spila bingó með alls konar tvisti og margt fleira. Þau halda líka upp á ógleymanleg böll þar sem allir dansa og tjútta,“ segir Margrét.

Vonir standa til að hægt sé að bjóða upp á sumarfrí aftur á GEO hótelum á næsta ári.

Margrét Vala Marteinsdóttir, forstöðukona Reykjadals.