HMS
HMS

Mannlíf

Góðan daginn frú forseti
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 21. október 2021 kl. 19:10

Góðan daginn frú forseti

Óperan Góðan daginn, frú forseti verður frumsýnd næstkomandi laugardag í Grafarvogskirkju. Óperan er tileinkuð frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrsta kvenforseta í heiminum, og fjallar um ævi hennar og störf. -Alexandra Chernyshova, sópransöngkona og tónskáld, hefur staðið í stöngu undanfarnar vikur að undirbúa sýninguna en að henni koma rúmlega 60 manns, stór hljómsveit, tólf einsöngvarar og tveir kórar. Alexandra, sem er handhafi Súlunnar, menningarverðlauna Reykjanesbæjar, er núna að sjá fyrir endann á sjö ára ferli með frumsýningunni og hvetur alla Suðurnesjamenn og unnendur góðrar tónlistar að koma og sjá verkið.

Einn af stofnendum Íslensku óperunnar er hljómsveitarstjóri

Bílaverkstæði Þóris
Bílaverkstæði Þóris

Garðar Cortes er hljómsveitarstjóri sýningarinnar. „Alexandra er rosalega dugleg og atorkusöm og gerir hluti sem ganga upp, þess vegna ákvað ég að taka þátt í verkefninu,“ sagði Garðar. Garðar Cortes, sem er skólastjóri Tónlistarskóla Reykjavíkur, var einn af stofnendum Óperu Íslands og þekkir því vel til óperusviðsins. „Tónlistin í óperunni er góð og Alexandra gefur okkur ferskan blæ með tónlistarsköpun sinni,“ heldur Garðar áfram. „Einnig gaman að sjá sögu frú Vigdísar í tónlistarformi sem þessu, við sjáum nýja hlið á forsetanum okkar í óperunni.“

Kvennakór Suðurnesja tekur þátt

Kvennakór Suðurnesja tekur þátt í verkefninu og þar er Dagný Jónsdóttir, söngkennari við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, stjórnandi. „Þetta er búið að vera yndislegt að taka þátt í verkefninu en um leið mjög krefjandi, bæði vegna Covid-aðstæðna og einnig þar sem við erum ekki vanar að taka þátt í svona stóru óperuverkefni, ferlið er búið að vera lærdómsríkt og skemmtilegt,“ sagði Dagný þegar Víkurfréttir hittu á hana á miðri æfingu í Grafarvogskirkju.

Tónlistin er mjög aðgengileg, fallegar laglínur og skemmtilegur texti. Sagan er frábær og Alexandra er einstök að taka þetta verkefni sér fyrir hendur, semja óperuna, fá allt þetta tónlistarfólk og syngja sjálf aðalhlutverkið,“ sagði Dagný að lokum.

Lunkinn melódíusmiður og skemmtileg tónlist

Tólf einsöngvarar koma fram á sýningunni, Viðar Gunnarsson, bassi, og Gissur Páll Gissurarson, tenór, fara annars vegar með hlutverk Finnboga, föður frú Vigdísar, og Magnúsar Magnússonar, sjónvarpsmanns og vinar Vigdísar. Tónlistin er verulega skemmtileg að mati Viðars og líkti senu í fyrsta þætti við ítölsku óperuna Cavalleria rusticana. „Það hefur verið gaman að fylgjast með æfinginum og ferlinu, að sjá óperu fæðast og límast saman. Alexandra er einstaklega lunkinn melódíusmiður þannig að ég er mjög ánægður og hrifinn,“ sagði Gissur Páll. 

Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á æfingarnar og síðan verður lokahnykkurinn á laugardaginn í Grafarvogskirkju með frumsýningunni. Miðasala fer fram á tix.is og við innganginn.Garðar Cortes, skólastjóri Tónlistar-skóla Reykjavíkur og einn af stofnendum Óperu Íslands, er hljómsveitarstjóri óperunnar.