Fjörheimar
Fjörheimar

Mannlíf

Fór í eldgömul jakkaföt og gerði nýtt lag
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 21. júní 2020 kl. 09:31

Fór í eldgömul jakkaföt og gerði nýtt lag

Doddi útvarpsmaður og Love Guru fóru í samstarf. Njarðvíkingurinn við hljóðnemann þorði aldrei að gera plötu en lætur drauminn rætast.

Einn harðasti Njarðvíkingurinn hér á landi er útvarpsmaðurinn Doddi litli en hann heitir Þórður Helgi Þórðarson. Ljúf rödd hans hefur lengi heyrst á öldum ljósvakans á öllum tímum sólarhringsins og það tók hann  um tuttugu ár að komast á toppinn, á Rás 2 allra landsmanna, en þangað stefndi strákur alla tíð. Doddi litli er líka tónlistarmaður og segist vera mikill „eitís“-gaur. Ný lög eru að koma úr framleiðslu þessa dagana og hann kynnir „Desire“ 19. júní en fleiri koma svo í kjölfarið. Fjölskyldan er öll þáttakandi í myndbandi sem fylgir og einnig fyrrverandi borgarstjóri. Við heyrðum í Dodda og spurðum hann út í tónlistina og fleira til.

– Við fengum óljósar fréttir af nýju lagi „ykkar“ Dodda og Love Guru. Hvað geturðu sagt okkur frá því?

Þetta er skrítin fæðing á dægurlagi, ég á hræðilega ljót jakkaföt inni í skáp en aldrei viljað henda þeim (gætu komið sér vel einhvern tíma). Síðast þegar ég var að taka til í skápnum sá ég þessi blessuðu föt og hugsaði ... nú fara þau! En einhver karl á öxlinni sagði: „Þú getur notað þau í myndband.“ Þessi setning hefur truflað mig í góðan tíma sem endaði á því að ég ákvað bara að  semja lag fyrir fötin. Ég var farinn að gera tónlist sem Doddi og ég gat gert eitthvað án þess að vera í gulum Henson-galla. Dodda tónlist á að vera mun alvarlegri en Love Guru en af einhverjum völdum komst Guru í textagerðina og varð lagið snemma mjög Gurulegt.

Eins og fram hefur komið þá er ég kallaður Doddi en Andri Freyr Viðarsson, sjónvarps- og útvarpsmaður, hefur lengið kallað mig D O Double D III (sem er bara Doddi með Andra stælum). Hann var mikið að vinna með þetta gælunafn þegar ég var að semja textann og auðvitað rataði það inn í textann. Lag sem átti að vera Doddalag en breyttist í Love Guru-lag þar sem endalaust er sungið um D O Double D III. Það auðvitað gekk ekkert upp svo þetta endaði bara sem Doddi Feat. Love Guru.

Þetta er rosalega langt frá öllu sem ég hef gert á æfinni, þarna syng ég og reyni meira að segja að gera það vel. Ég er ekki viss um að einhver hafi gert ráð fyrir að heyra Love Guru eða Dodda syngja R og B skotið diskó. Ég held að forvitnir ættu að gera sér ferð á Spotify 19. júní bara til að heyra þennan drumb reyna að syngja.

– Og eitthvað meira en bara lag, plata jafnvel?

Ég, eins og örugglega margir, hef gengið með þann draum að gera plötu með minni tónlist. Ég hef bara aldrei haft sjálfstraust til þess, aldrei þorað því. Love Guru-kvikindið er allt annað, þar er ég bara að fíflast og gera frekar leiðinlega tónlist. Þar er ég bara  að hugsa um að skemmta fólkinu á ballinu, mikið hopp, öskur og hí. Í fyrra fann ég loksins röddina mína og þori að syngja sem ég sjálfur, ekki einhver fígúra.

– Hvernig hefur lífið verið við hljóðnemann undanfarin ár?

Lífið við hljóðnemann hefur alltaf verið gott en draumurinn var alltaf að komast á Rás 2.

Rás 2 er efsta þrepið á stiga útvarpsmannsins og það tók mig einhver tuttugu ár. Ég hóf þar störf 1. júlí 2009 sem tæknimaður í Morgunútvarpinu og get sagt með sanni að ég hafi verið bókstaflega á öllum tímum sólarhringsins, meira að segja frá þrjú til sjö þegar eldgosið í Eyjafjallajökli var í fullum gangi, þá var fréttastofan með sólarhringsvakt og ég sá um nóttina og tók á móti fréttamönnum þegar það bárust nýjar fréttir á þeim tíma. Það er gífurlega gaman að vera síðan með þjóðinni á morgnana og vinna Morgunverkin með þessu góða fólki.

– Hvað geturðu sagt okkur um æskuárin í Njarðvík?

Well, ég er nú þegar búinn að svara spurningum í löngu máli svo ég skal hemja mig.

Æskuárin í Njarðvík voru bara frábær, í Njarðvík býr ótrúlega vandað fólk eins og allir sem lesa þetta blað vita. Ég er vandræðalega mikill Njarðvíkingur, nota bara græna tannbursta og kaupi óþarflega mikið af grænu dóti þrátt fyrir að fjölskyldan sé ekkert hrifin af þeim lit. Margir af mínum bestu vinum búa enn í Njarðvík og mun ég einhvern tíma flytja þangað aftur. Eins og segir í auglýsingunni: „Njarðvík, best í heimi!“

Fjölskylda Dodda kemur að gerð myndbandsins.  Hægra megin við Dodda er dóttir  hans, þið þekkið gæjann vinstra megin við hann. Kona hans og fjórtán ára dóttir tóku myndbandið upp og tíu ára sonur hans stjórnaði playbakkinnu ...

– Nafn:

Þórður Helgi Þórðarson (Doddi litli)

– Árgangur:

1969.

– Fjölskylduhagir:

Giftur með tíu ára strák og fjórtán ára stelpu á heimilinu. Stóra stelpan mín er löngu flutt út.

– Búseta:

Breiðholt, Reykjavík.

– Hverra manna ertu og hvar upp alin?

Ég bjó hjá ömmu og afa á Hlíðarvegi 5 frá þriggja eða fjögurra ára aldri. Afi hét Haukur Ingason og amma Sigríður María Aðalsteinsdóttir, þau eru bæði fallin frá.

– Starf/nám:

Dagskrágerð, hljóðvinnsla og tæknimaður á Rás 2. Grunnskólapróf og hljóðvinnslunámskeið ýmis konar.

– Hvað er í deiglunni?

Það er að klára þessa plötu (sem Doddi er efst á baugi).

– Hvernig nemandi varstu í grunnskóla?

Algjör tossi sem krakki, prýðilegur frá tíu til þrettán ára. Þá uppgövaði ég hitt kynið, tónlist og félagslíf og fór aftur í tossann.


– Hvernig voru framhaldsskólaárin?

Ég lenti í einu af mörgum verkföllum þegar ég reyndi við FS og var fljótur að nota þá afsökun til þess að gefast upp. Fór síðar í tækniteiknun í Iðnskólanum og var kominn vel á veg þar þegar mér bauðst vinna á X-inu 977 og var fljótur að nota þá afsökun til þess að hætta í skólanum.

– Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?

Ég man að ég var einhvern tíma að ræða við mömmu mína um hvað ég vildi gera. Hún sagði: „Þú getur verið allt sem þú villt, þú þarft bara að hafa fyrir því!“ Ég spurði þá: „Gæti ég þá kannski orðið útvarpsmaður eða poppstjarna?“ Þá svaraði hún: „Ég er ekki að meina að þú getir gert nákvæmlega allt!“ Hæ mamma ...

– Hver var fyrsti bíllinn þinn?

Það var Mazda 929 minnir mig. Borgaði 20 þúsund út og restin, 40 þúsund, var á víxlum. Ég er ekki frá því að ég hafi verið svalasti maður Suðurnesja á þeim tíma.

Svona þangað til að drekinn fór að gefa eftir, bíllinn var ekki nema tíu ára gamall og var að hruni kominn. Afi átti Mözdu svo ég vildi ekki vera minni maður. Bíllinn fékk ekki skoðun nokkrum mánuðum eftir að ég keypti hann, var bremsulaus og löggan vissi af mér – en ég segi oft, nokkuð góður með mig, söguna af því þegar ég stakk lögguna af á bremsulausu Mözdunni minni og faldi mig í kofa á einhverjum róluvelli í Keflavík. Þeir fundu mig ekki, spurning hvort þeir geri það núna.

– Hvernig bíl ertu á í dag?

Fjórtán ára SAAB, bremsurnar soldið slæmar og stutt í skoðun. Ekki segja löggunni frá því. Ég er að skoða róluvelli ef ég skildi lenda í veseni.

– Hver er draumabíllinn?

Hann er ekki til því við fáum ekki fleiri SAAB-a í þetta líf, gífulegur skellur! Ætli það sé ekki bara fjórtán ára SAAB.

– Hvert var uppáhaldsleikfangið þitt þegar þú varst krakki?

Ætli það hafi ekki verið Mitre-fótbolti eða bara plötuspilari með útvarpi þar sem maður gat hlustað á Kanann. American Forces Radio (þeir sem muna eru núna að syngja þetta stef).

– Besti ilmur sem þú finnur:

Nýbökuð pizza.

– Hvernig slakarðu á?

Fer út að labba með úlfinn.

– Hver var uppáhaldstónlistin þín þegar þú varst u.þ.b. sautján ára?

Frá því ég var u.þ.b. tólf ára kom hljómsveitin Depeche Mode inn í mitt líf og hún hefur eignað sér þennan titil síðan þá. Samt hefur hún ekki gert góða plötu á þessari öld. Hún hefur bara unnið sér réttinn til þess að eigna sér toppsætið á meðan ég tóri.

– Uppáhaldstónlistartímabil?

Ég er annálaður 80’s maður en það er til endalaust af ömurlegri 80’s-tónlist og það virðist vera það eina sem heyrist í dag, leiðinlega 80’s-ið. Ég mæli eindregið með podcast-seríu sem ég gerði fyrir nokkrum árum þar sem ég fékk allskonar 80’s-stuðningsmenn til þess að finna Gleymdar Perlur Áttunnar (nafnið á þáttunum). Ég er endalaust að fá þakkir frá fólki sem er kannski að heyra uppáhaldslagið sitt frá 1983 en var bara búið að gleyma því. Ég gerði líka Gleymdar Perlur Níunnar sem var þá um 90’s. Þetta má finna allt í Spilaranum á ruv.is og í hlaðvarpinu þar. Það er líka mikið af þessu á Spotify en ég held að það vanti þætti þangað. Þar sem ég er að tala um podcost sem ég hef gert þá gerði ég ansi vel heppnaðar seríur sem ég kallaði Grínland, þar fékk ég margt af skemmtilegasta fólki landsins til þess að segja sögur af sjálfu sér, það er allt á Spotify.

– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?

Ég er gífurlega háður tónlist en ég hlusta ekkert á vinsældarpopp lengur, ég fæ alveg nóg af því í vinnunni. Allt sem ég hlusta núna er mjög skrítið og ég veit ekki hvað helmingurinn af því heitir. Ég safna bara á playlista á Spotify og er svo duglegur að fara út að labba með úlfinn og þá sé ég ekkert hverjir eiga hvaða lag. Stutta svarið er ... ég hlusta mikið en ég veit ekkert hverjir það eru.

– Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili?

Það er ótrúlega lítið hlustað á tónlist heima í opnum rímum. Við erum tillitssamt fólk og virðum aðra fjölskyldu meðlimi svo við notum heyru (headphones).

– Leikurðu á hljóðfæri?

Ég get bjargað mér á syntha í tölvunni þegar ég er að semja. Ég reyndi fyrir mér á gítar en varð svo aumur í puttunum að ég bara hætti því, ég er svo mikill aumingi.

– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?

Ég horfi frekar mikið á sjónvarp á veturna, mun minna á sumrin og ekkert núna þegar ég er að koma út þessu lagi. Ég horfi mikið á fótbolta og körfubolta og eitthvað á Netflix en það er svo mikið af drasli þar og oft erfitt að finna góðu molana.

– Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?

Enska boltanum og körfubolta, fréttum og kannski íslensku gamanefni. Hlakka mikið til að sjá Júragarðinn.

– Besta kvikmyndin:

Vá, ég hef svo oft pælt í þessu. Pass.

– Hver er uppáhaldsbókin þín og/eða rithöfundur?

Ég les mest tónlistarbækur og ævisögur tónlistarmanna og ég pæli ekkert í þeim höfundum.

– Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili?

Ekkert.

– Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?

Sósur, fólkið í hverfinu kemur og fær afleggjara.

– Hvernig er eggið best?

Over easy.

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?

Rosa margt, ADHA er að detta sterkt inn þessa dagana

– Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra?

Frekja og yfirgangur.

– Uppáhaldsmálsháttur
eða tilvitnun:

Njarðvík eru bestir!

– Hver er elsta minningin sem þú átt?

Það koma upp þrjár sem ég vil tala um. Fyrsta er amma í bleikri kápu að labba með innkaupapoka hjá Fíabúð, ekkert meira, bara þessi bleika kápa. Svo eru tvær minningar frá Mallorca. Ég fór þangað með pabba þegar ég var fjögurra ára. Þar smakkaði ég besta ís sem ég hef smakkað og datt úr rennibraut. Já og vinur hans pabba gerði svo gott spagettí að ég sleikti diskinn og öllum fannst það voða fyndið. Ég hef örugglega ákveðið þar að showbiz væri fyrir mig.

– Orð eða frasi sem þú notar of mikið:

Yfirmaður minn segir að ég noti „kæru hlustendur“ full mikið

– Ef þú gætir farið til baka í tíma, hvert færirðu?

Njarðvík u.þ.b. ‘85, geggjaður tími!

– Hver væri titillinn á ævisögu þinni?

Ég er víst dáinn kæru hlustendur.

– Þú vaknar einn morgun í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera?

Donald Trump og banna mig sem forseta, setja í lög að ég yrði að vera fastur í svítu á einhverju hótelinu mínu til dauðadags.

– Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð?

Ég er lélegur í svona leikjum svo ég myndi bara kalla í matarklúbbinn minn, Valdimar, Rúnar, Höllu og Jónsa ... ég er eiginlega að gera það hér. Þetta er mjög góður vettvangur til þess.

– Hvernig hefur þú verið að upplifa árið 2020 hingað til?

Væntanlega betur en margir, ég get ekki kvartað.

– Er bjartsýni fyrir sumrinu?

Ég er fáránlega svartsýnn gaur. Þetta verður ekki jafn gott og í fyrra en mun betra en 2018.

– Hvað á að gera í sumar?

Vinna í plötu, garði, húsi og mér

– Hvert ferðu í sumarfrí?

Út á pall, við förum að vísu á Snæfellsnesið í júlí en það er aðallega því ég verð að spila þar og fjöllan ætlar með og við gerum langa helgi úr því á nesinu. Fallegur staður sem ég hef ekki skoðað í áratugi.

– Ef þú fengir gesti utan af landi sem hafa aldrei skoðað sig um á Suðurnesjum. Hvert myndir þú fara með þá fyrst og hvað myndir þú helst vilja sýna þeim?

Njarðvík.

– Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu ...

... beint úr flugvélinni aftur og heim. Ég þoli ekki að ferðast og geri það nánast aldrei. Ég held að ég hafi farið tvisvar erlendis síðustu tólf árin. Fór á Frakkland – Ísland á EM og sjötugsafmæli pabba í Marocco. Jú og á tónleika með hljómsveitinni SAGA í Noregi þar sem við djömmuðum með bandinu daginn fyrir tónleika. Þeir gerðust svo góðir vinir eins okkar að þeir gistu hjá honum á Sólvallagötunni þegar þeir millilentu í Kef fyrir nokkrum árum og héldu tónleika fyrir hann og einn annan vin hans – en mig langar að keyra um Ítalíu og gefa mér góðan tíma í það, ég fór þangað þegar ég var fjórtán ára og eins og með Depeche Mode, þá verður það alltaf uppáhaldslandið mitt ... sjitt hvað ég er vanafastur.


Hér má sjá afraksturinn á Spotify:

https://open.spotify.com/artist/4uDjp80ACpBEbLavgAgD4R?si=i_TaGSzFRSKCTgLEK8bz9Q