Mannlíf

Fjölsóttar sagnastundir á Garðskaga
Frá fjölsóttri sagnastund á Garðskaga síðasta laugardag. VF-mynd: Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 20. janúar 2023 kl. 08:01

Fjölsóttar sagnastundir á Garðskaga

Sagnastundir á Garðskaga, sem þeir Hörður Gíslason og Bárður Bragason hafa staðið fyrir á veitingahúsinu Röstinni, hafa verið fjölsóttar. Í sagnastund síðasta laugardag var sagt frá atburði sem varð í aprílmánuði 1998, þegar varðskipsmenn á Óðni björguðu flotkví sem hafði slitið sig lausa og rekið langt suður í haf.

Fyrst komu Óðinsmenn að björgun kvíarinnar vestur af Írlandi og svo aftur nokkrum dögum síðar þegar kvíin hafði slitnað aftan úr dráttarbáti við Reykjanes. Þá rak hana vestur um haf og náðist loks í grænlenskri lögsögu. Samtals tóku björgunaraðgerðir kvíarinnar, sem er í eigu Vélsmiðju Orms og Víglundar, rúmar þrjár vikur. Varðskipsmenn á Ægi komu einnig að björguninni í seinna skiptið. Rétt um eitthundrað manns mættu á sagnastundina á Garðskaga síðasta laugardag.

Áður en Vilbogi Magni Óskarsson, skipherra á Óðni, flutti erindið um björgun kvíarinnar var Ásgeir Magnús Hjálmarsson heiðraður sérstaklega. Hann fagnar 80 ára afmæli um þessar mundir en það er fyrir forystu Ásgeirs að byggðasafn er á Garðskaga en Ásgeir hefur í áratugi safnað munum úr byggðasögu Garðsins sem voru grunnurinn að því safni sem nú er á Garðskaga.

Fyrsta sagnastundin var seint á síðasta ári og þá mættu um sextíu manns.

Laugardagana 11. febrúar, 11. mars, 15. apríl og 13. maí 2023 eru næstu sagnastundir áætlaðar og verður greint frá efni þeirra þegar nær dregur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024