Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Fer aldrei eftir jóla exelskjalinu
Þriðjudagur 21. desember 2021 kl. 07:49

Fer aldrei eftir jóla exelskjalinu

Fríða Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi í Suðurnesjabæ er nútíma jólakona og nýtir vel alla afsláttardagana í nóvember til jólagjafakaupa. Setur upp exelskjal sem hún reyndar lendir oftast í vændræðum með.

Nafn og staða: Fríða Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi Suðurnesjabæ

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hvernig hagar þú jólagjafainnkaupum?

Ég og Sissi maðurinn minn höfum alltaf sett upp excelskjal með kostnaðaráætlun og hugmyndum af gjöfum fyrir alla. Ég reyndar stend aldrei við skjalið og eyði alltaf langt umfram það sem kemur fram þar og í ár eyddi ég auðvitað alltof miklu á netinu með því að nýta allt þetta Singles day, Black Friday o.s.frv. Við getum allavega sagt það að ég er aldrei alveg viss um  hvað ég er að sækja þegar ég mæti á pósthúsið og það hefur alveg komið fyrir að ég panti tvisvar óvart sama hlutinn.


Hvað með jólaskreytingar, eru þær fyrr í ár?

Við höfum haldið í þá hefð að skreyta alltaf síðustu helgina í nóvember, en samkvæmt óformlegri veðurkönnun minni er alltaf besta veðrið ár hvert þá helgi í að skreyta. Og svo auðvitað að bæta í safnið strax eftir aðfangadag þegar öll ljósin fara á útsölu.

Skreytir þú heimilið mikið?

Ég er algjört jólabarn og já ég skreyti svo sannarlega mikið, eitt af markmiðunum er að sjálfsögðu að allir farþegar sem fljúga hér yfir Suðurnesjabæ sjái vel heimilið mitt, Ráðagerði, frá flugvélaglugganum. Jólaskreytingarnar inni eru svo ekki neitt látlausari, hér er alltaf keypt risastórt ekta jólatré og því plantað á mitt stofugólfið. Aðrar skreytingar eru helst allir Georg Jensen óróarnir sem ég erfði frá ömmu minni og hef fengið nýjan í safnið árlega eftir það frá Helga frænda. Mikil hefð hefur skapast í uppsetningu þeirra, en allir borðar eru straujaðir og ekkert annað en jólaplata Ellýjar og Villa má spila undir, allt í minningu Fríðu ömmu.

Bakarðu fyrir jólin og ef hvað þá helst?

Já ég er mikill bakari. Sörur eru í miklu uppáhaldi og eru þær auðvitað einstakar vegna leyniuppskriftar Fríðu frænku (Kahlúa... hóst...). Svo eru auðvitað þessar hefðbundu smákökur bakaðar ásamt lakkrístoppum, en hér eru líka bakaðir lakkrístoppar án lakkrís, því af einhverjum óskiljanlegum ástæðum og þjóðarlögbroti borða yngstu stelpurnar okkar ekki lakkrís.

Eru fastar jólahefðir hjá þér?

Jólatörnin byrjar í raun hér í Ráðagerði á Þakkargjörðarhátíð í lok nóvember, en þá mætir fjölskylda mín og öll Sissa fjölskylda í kalkúnaveislu hér heima. Við gerum svo líka alltaf laufabrauð í desember að hætti pabba heitins og höfum hingað til alltaf farið á Prins Póló jólatónleika sem því miður verða ekki í ár.  Ég og systkinin mín höldum svo alltaf okkar Sushi-jól á annar í jólum sem er frábær hefð eftir allt reykta kjötið. Við höldum okkar „aðfangadag“ hátíðlegan hér heima á jóladag, borðum sex og opnum svo pakka og borðum hina frægu súkkulaðimús Sissa, en á aðfangadag eru krakkarnir hjá móður sinni og ég og Sissi í Reykjavík hjá fjölskyldu minni.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir?

Ætli það hafi ekki verið jólin á Hagamelnum þar sem ég ólst upp hjá ömmu og afa og ég fékk Bonna páfagauk í jólagjöf sem er svona fyrsta jólaminningin, pakkinn allur á hreyfingu og ég gargandi af gleði og ekki að þora að opna hann.

Áttu skemmtilega jólaminningu?

Skemmtilegasta jólaminningin er þegar litli bróðir minn fæddist þegar ég var 8 ára, en hann fæddist á aðfangadag og var ég alls ekki sátt með það. Ég grét allan aðfangadag. Í fyrsta lagi vegna þess að hann var strákur, en mig langaði í litla systur og í öðru lagi vegna þess að ég var búin að vera hálfgert einkabarn í 8 ár og fannst hann taka helst til of mikla athygli frá mér.

Eftirminnilegasta jólagjöfin

Ætli bróðir minn sé ekki allra eftirminnilegasta og besta jólagjöfin.

Er eitthvað sérstakt sem þig langar að fá í jólagjöf?

Ég óska mér sjaldan einhvers sérstaks í jólagjöf, en á sama tíma er ég afskaplega dugleg í að versla mér eitthvað nýtt í desember. Það er auðvitað algjör skylda að fá allavega eina góða jólabók og eina góða vínylplötu.

Hvað verður í jólamatinn á aðfangadagskvöld?

Við erum alltaf hjá Fríðu frænku á aðfangadag og hefur myndast hefð í því að hafa alltaf eitthvað nýtt í matinn, eins og t.d. önd, gæs eða hreindýrakjöt, en svo haldið í hefðina hennar ömmu í eftirrétt og er hann því alltaf Sérrí-frómas. Á „aðfangadegi“ okkar á jóladag geri ég svo Wellington með sérstakri fyllingu og Sissi sér um hamborgarhrygginn. Í eftirrétt er svo alltaf fræga súkkulaðimúsin hans.