Mannlíf

Ef maður hefur ekki heilsu þá hefur maður ekki neitt
Mynd: Harpa Ósk
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
mánudaginn 1. ágúst 2022 kl. 15:00

Ef maður hefur ekki heilsu þá hefur maður ekki neitt

Þann 8. júlí síðastliðinn lét Dísa Edwards fjarlægja púða sem hún hafði verið með í brjóstunum síðan hún var átján ára. Dísa opnaði sig um áhrifin sem púðarnir voru byrjaðir að hafa á heilsu hennar á Instagram-síðu sinni. „Ég vildi óska þess að læknirinn minn hefði unnið starf sitt og upplýst mig fyrir sextán árum síðan að brjóstapúðar séu ekki öruggir og hafa aldrei verið það,“ er meðal þess sem kemur fram í færslu hennar.

Dísa Edwards er búsett í Njarðvík, hún er þriggja barna móðir, starfar sem fasteignasali og flugfreyja auk þess þjálfar hún Crossfit og býður upp á fjarþjálfun. Dísa hafði verið með púða síðan 2006 en eftir að hún skipti þeim út fyrir nýja árið 2015 hefur hún fundið fyrir ýmsum einkennum. „Þetta heitir sem sagt „breast implant illness“ og er eitthvað sem margar konur, sem hafa farið í svona aðgerð, upplifa. Það sem var svona helst að hrjá mig er að ég er búin að vera með dofa í höndunum frá því að það var skipt um púðana. Þá byrjaði allt að gerast. Það er mjög algengt þegar konur skipta um púða að þær byrji að finna fyrir einhverjum svona einkennum. Það sem gerðist sem sagt var að púðarnir sem voru teknir láku og það myndast örvefur í kringum púðana, örvefurinn var ekki tekinn hjá mér en það hefði í raun átt að gera það. Það er mjög mikilvægt að það sé allt tekið í slíkum aðgerðum,“ segir hún. Dísa hefur verið með dofa í höndunum í um sex ár og hefur leitaði hjálpar til Emils Ragnars, bróður hennar, en hann er osteopati.

 „Hann segir mér að þetta sé eitthvað taugatengt og að það sé ekkert meira sem hann getur gert,“ segir Dísa. Eftir að hafa verið í reglulegum meðferðum hjá honum í ár, án árangurs, fór hún í rannsóknir og meðferðir til að fá svör við því hvað væri að valda þessum heilsukvillum hennar. Blóðprufur, skannar og rannsóknir komu hins vegar allar vel út. „Þegar það kemur ekkert út úr því öllu þá nefni ég það við hann að ég haldi að þetta séu púðarnir og hann jánkar því og segir að honum finnist það alls ekki ólíklegt. Þá sérstaklega núna þar sem við erum búin að fá niðurstöður um að allt ætti að vera í lagi,“ segir Dísa.

Dísa æfir Crossfit og ólympískar lyftingar

Samfélagsleg skylda að upplýsa fólk 

Á síðustu árum hefur umræðan um brjóstapúða og fylgikvilla þeirra aukist til muna. Aðspurð segir Dísa að hún hefði ekki látið skipta um púða 2015 hefði umræðan verið meiri á þeim tíma: „Þegar ég lét skipta um púða árið 2015 þá var í raun engin umræða um þetta. Hefði ég verið búin að heyra af þessu á þeim tíma finnst mér mjög ólíklegt að ég hefði látið setja nýja. Þá hefði ég bara látið taka hina út og sagt það gott.“ Þá segir Dísa að sögur annarra kvenna hafa hjálpað henni að taka þá ákvörðun að láta fjarlægja púðana fyrir fullt og allt. Það varð til þess að hún ákvað að opna umræðuna á sínum eigin Instagram-aðgangi. „Mér fannst það vera samfélagsleg skylda að upplýsa fólk,“ bætir hún við. Áhrifarík mynd fylgdi með færslu hennar en vinkona hennar, ljósmyndarinn Harpa Ósk, tók myndina. Harpa hefur einnig látið fjarlægja púða sem voru að valda henni óþægindum og gat því sett sig í spor Dísu. Myndin og skilaboðin sem fylgdu henni hafa vakið mikla athygli og segir Dísa viðbrögðin hafa verið „ótrúlega góð“ og bætir við: „Það eru rosalega margir sem eru búnir að hringja í mig og segjast vera með sömu einkenni en aldrei pælt í því að þetta gætu verið púðarnir.“ Síðan Dísa fór í aðgerðina hefur hún reglulega sett inn færslur um líðan sína á Instagram en allar eru þær eitthvað í þessa áttina: „Ellefu dagar liðnir frá aðgerð og aldrei verið betri.“ Þrátt fyrir að stutt sé síðan aðgerðin var framkvæmd segir Dísa að hún finni fyrir líkamlegum mun og er ánægð með ákvörðunina. „Ég finn mun á andardrætti, ég hef greinilega verið að anda mjög grunnt en nú næ ég að draga inn andann án þess að það sé eins og eitthvað hamli það. Ég er mun léttari á mér í kringum axla- og bringusvæðið, svo var ég líka búin að vera með stíflað nef í nær sex ár og ég er ekki búin að vera með það eftir aðgerð. Það má samt vel vera að það sé tilviljun en mér finnst það ólíklegt. Ég er að vísu ennþá með dofa í höndunum en það gæti tekið hátt í sex mánuði fyrir hann að fara,“ segir Dísa.

Dísa ásamt fjölskyldu sinni

Gott að eiga góða að

Dísa er alltaf með nóg á sinni könnu en í dag vinnur hún sem fasteignasali, fjarþjálfari, flugfreyja og þjálfar af og til í hóptímum hjá Crossfit Suðurnes. Auk þess fer hún á æfingar sex sinnum í viku. „Ég er mjög „busy“ og ég viðurkenni það alveg en ég á mjög góðan mann og góða foreldra sem hjálpa mér að láta þetta ganga upp. Ég reyni að æfa alla daga nema sunnudaga hvort sem ég er að fljúga eða ekki, mér finnst ég bara betri ef ég næ að æfa,“ segir hún. Dísa keppti á Íslandsmótinu í Crossfit fyrr á árinu og segir hún púðana hafa sett strik í reikninginn á mótinu. „Um leið og ég er undir miklu líkamlegu álagi þá á ég erfitt með að framkvæma æfingarnar. Þetta lýsir sér eins og beinhimnubólga nema í höndunum. Maður verður hálfaumur og getur varla tekið í brúsann sinn og fengið sér að drekka. Ég fann mikið fyrir þessu á mótinu en ég klára samt alltaf æfingarnar þó ég sé að drepast en þá verður líka næsta æfing eða dagurinn á eftir ekkert sérstaklega góður,“ segir Dísa.

Það er Dísu mikilvægt að hafa góða heilsu og segist hún hafa komist skrefi nær því með því að láta fjarlægja púðana. „Eftir að ég tók púðana áttaði ég mig á því að ef maður hefur ekki heilsu þá hefur maður ekki neitt. Draumurinn er að hafa góða heilsu, geta verið til staðar fyrir börnin mín og tekið þátt í öllu sem þau gera,“ segir Dísa að lokum.