SSS
SSS

Íþróttir

Team Rynkeby afhenti Umhyggju 32 milljónir
Frá athöfninni þegar söfnunarféð var afhent Umhyggju.
Laugardagur 12. október 2024 kl. 06:01

Team Rynkeby afhenti Umhyggju 32 milljónir

Laugardaginn 28. september afhenti Team Rynkeby á Íslandi Umhyggju – félagi langveikra barna söfnunarfé hjólaársins 2023–2024 við hátíðlega athöfn í húsakynnum embættis landlæknis.

Fulltrúar Umhyggju, Jón Kjartan Kristinsson, stjórnarformaður Umhyggju, Chien Tai Shill og Þórdís Helgadóttir Thors veittu styrknum móttöku úr höndum Víólettu Óskar Hlöðversdóttur, liðsstjóra íslenska liðsins, en styrkurinn að þessu sinni var að upphæð 31.945.738 krónur. Fulltrúar Umhyggju færðu Team Rynkeby miklar þakkir við þetta tilefni og fóru yfir hlutverk Umhyggju og verkefni sem söfnunarféð nýtist í. Fram kom í máli þeirra að söfnunarféð verður m.a. nýtt í þágu rannsókna og í almenna þjónustu sem félagið veitir langveikum börnum og aðstandendum þeirra.

Víóletta Ósk, liðsstjóri Team Rynkeby, færði öllum styrktaraðilum hópsins þakkir fyrir þeirra framlag en stuðningur fyrirtækja og einstaklinga skiptir einstaklega miklu máli í þessu verkefni. Góður stuðningur skilar sér ekki einungis í sjóðinn sem rennur óskiptur til Umhyggju heldur er þetta einnig hvatning til liðsfélaganna sem taka sér tíma í hverri viku til að safna fjárframlögum og æfa sig fyrir hjólaferðina frá Kolding í Danmörku yfir til Parísar, ferð sem tekur átta daga að hjóla og er um 1.300 km vegalengd. Þá fékk þjónustuliðið eða umhyggjuliðar hópsins miklar þakkir en án þeirra myndi ferðalag sem þetta ekki ganga upp.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Til viðbótar nefndi Víóletta að liðsmenn greiða allir sjálfir fyrir þátttöku sína í verkefninu með kaupum á hjóli, fatnaði, flugfargjaldi og gistingu þannig að allt söfnunarfé rennur í sjóðinn til Umhyggju.

Nánar er hægt að fræðast um störf félaganna, Team Rynkeby og Umhyggju, á heimasíðum þeirra, www.team-rynkeby.is og www.umhyggja.is.