Langbest
Langbest

Íþróttir

Sá leikjahæsti búinn að endurheimta fótboltagleðina
Óskar í leik með Stjörnunni gegn Keflavík á síðustu leiktíð. VF-mynd: JPK
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 29. janúar 2023 kl. 06:33

Sá leikjahæsti búinn að endurheimta fótboltagleðina

Takmark Grindavíkurliðsins einfalt, sæti í deild þeirra bestu – Bestu deildinni.

„Það er eins og menn haldi að Reykjanesbrautin sé lengri í aðra áttina,“ segir Óskar Örn Hauksson.

„Standið á mér er mjög gott, líkaminn á góðu róli en það er bara janúar núna, mér líður vel miðað við árstíma. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að ganga til liðs við Grindavík er að stefnan er tekin upp, mikill metnaður hjá nýjum formanni og stjórn,” segir knattspyrnumaðurinn Óskar Örn Hauksson sem nýverið gekk til liðs við Grindavík á nýjan leik.

Óskar er leikjahæsti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi en í heildina á hann skráða 599 leiki í mótum á vegum KSÍ og hefur skorað 169 mörk í þeim, hann er m.a. markahæsti leikmaður KR frá upphafi í efstu deild. Óskar sem er orðinn 38 ára gamall er hvergi af baki dottinn en hann kom til Grindavíkur ungur að árum frá heimabænum Njarðvík en gekk svo til liðs við KR eftir tímabilið 2006.

Stjórnendafélag Suðurnesja
Stjórnendafélag Suðurnesja

Grindavíkurliðið hefur fengið töluverðan liðsstyrk frá síðasta tímabili og hæst ber að nefna Óskar sem var aðeins búinn að tapa gleðinni við að spila fótbolta en hefur endurheimt hana á ný og er brattur fyrir komandi tímabil. „Ég er tiltölulega nýbyrjaður að æfa með liðinu, skrifaði undir samninginn um miðjan desember og ég myndi segja að undirbúningstímabilið fari vel af stað. Ég er mjög ánægður að vera kominn aftur til Grindavíkur og finn hvernig gleði mín við að spila fótbolta er komin á ný, ég tapaði henni aðeins í fyrra. Skemmir líka ekki fyrir að veðrið hefur verið ótrúlega stillt og gott en við æfum tvisvar í viku á gervigrasvellinum á Álftanesi. Ég hef alltaf kunnað miklu betur við mig úti en inni í höll en við KR-ingar æfðum alltaf þannig, þegar veður er í lagi þá er það miklu betra að mínu mati. Svo æfum við líka í Hópinu og í Crossfit-stöðinni hjá Óla Baldri.“

Óskar í leik með KR.


Deildarbikarinn framundan

Lið Grindavíkur er byrjað að spila æfingaleiki og deildarbikarinn er framundan, Óskar sló aðeins á þá léttu. „Já, eigum við ekki að segja að við séum bara búnir að spila einn æfingaleik? Nei, við spiluðum við Stjörnuna fyrir rúmri viku og steinlágum 3:0 en áttum síðan góðan leik á móti Haukum um síðustu helgi og unnum 3:2. Ég setti annað markið okkar, alltaf gott að koma sér á blað. Mestu skiptir þó að við spiluðum nokkuð vel og unnum, ekki að svona æfingaleikir skipti öllu máli en samt, þú vilt frekar vinna en tapa. Svo styttist í deildarbikarinn en þá er öllum liðunum í efstu tveimur deildunum raðað í fjóra riðla og efsta liðið í hverjum riðli fer í undanúrslit. Við erum í erfiðum riðli en það verður gaman að máta okkur við bestu liðin,“ segir Óskar.

Mörg íslensk lið fara í æfingaferð á suðlægar slóðir og Grindavík er þar engin undantekning. „Við förum til Campoamor á Spáni, það er vinsæll staður íslenskra liða, toppaðstæður. Alltaf gaman að komast úr kuldanum á Íslandi á iðagrænt grasið á Spáni. Þetta eru líka mjög mikilvægar ferðir upp á liðsanda og slíkt. Hér áður fyrr voru oft sett upp mót milli íslensku liðanna en við munum ekki spila neina æfingaleiki, það fer of mikið púður í þá sem bitnar þá á gæðum æfinganna.“

Óskar er brattur fyrir komandi tímabil, takmark hans og Grindavíkurliðsins fyrir tímabilið er einfalt. „Ég tel okkur vanti einn til tvo leikmenn til að vera komnir með fullmótað lið og það er verið að vinna í því. Ég veit ekki hvort það verði útlendingar en að reyna fá íslenska leikmenn til Grindavíkur virðist vera erfitt, það er eins og menn haldi að Reykjanesbrautin sé lengri í aðra áttina, þ.e. frá Reykjavík til Grindavíkur. Það er eins og menn telji sig vera keyra hinum megin á hnöttinn! Leikmannamálin fara eins og þau fara, ég hef ekki áhyggjur og er viss um að við verðum með gott lið í sumar sem mun keppa um að komast upp, ég hlakka mikið til tímabilsins,“ sagði Óskar að lokum.

Óskar Örn Hauksson og Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar UMFG, kampakátir við undirritun samningsins í lok síðasta árs. VF-mynd (til vinstri): SDD | Þessi skemmtilega mynd af Óskari (til hægri) birtist á síðum Víkurfrétta þann 15. nóvember 1990.