Íþróttir

Njarðvíkingar juku forskotið á Grindavík
Krista Gló Magnúsdóttir skoraði sjö stig og tók þrjú fráköst í leiknum gegn ÍR. Myndir úr safni Víkurfrétta
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 30. janúar 2023 kl. 11:53

Njarðvíkingar juku forskotið á Grindavík

Njarðvík vann annan sigur sinn í röð í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í gær þegar liðið lagði botnlið ÍR á útivelli. Á sama tíma tapaði Grindavík fyrir Haukum en Grindavík hefur sótt hart að Njarðvíkingum undanfarið í baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Topplið Keflavíkur tapaði fyrir Val sem minkaði muninn í tvö stig á toppi deildarinnar en Keflavík er með 32 stig, Valur 30 og Haukar 28. Njarvík er í fjórða sæti með 20 stig og Grindavík í því fimmta með 16 stig.

ÍR - Njarðvík 61:77

(16:26, 12:13, 8:26, 22:12)

Raquel Laneiro (19 stig/4 fráköst/2 stoðsendingar) og Aliyah Collier (16/6/5) létu mest að sér kveða í skyldusigri Njarðvíkinga á ÍR. Þá var Ísabella Ósk Sigurðardóttir öflug og tók ellefu fráköst (8/11/1), Bríet Sif Hinriksdóttir (9/4/2) og Kamilla Sól Viktorsdóttir (9/1/0) skoruðu níu stig hvor.


Danielle Rodriguez leiddi Grindvíkinga í stigaskorun, var með 23 stig, tvö fráköst og sjö stoðsendingar.

Optical Studio
Optical Studio

Haukar - Grindavík 77:67

(23:13, 19:16, 19:18, 16:20)

Haukar náðu yfirhöndinni strax í byrjun og leiddu með tíu stigum að loknum fyrsta leikhluta. Munurinn jókst eftir því sem leið á leikinn þótt Grindavík hafi náð að klóra í bakkann í lokaleikhlutanum.

Hulda Björk Ólafsdóttir komst næst Rodriguez í stigaskorun (15/6/2), þá komu þær Elma Dautovic (13/6/0) og Amanda Okodugha (13/7/1).

Grindavík er nú fjórum stigum á eftir Njarðvík í baráttunni um fjórða sætið sem gefur sæti í úrslitakeppninni.


Anna Ingunn Svansdóttir var atkvæðamikil gegn Val með átján stig, þrjú fráköst og fjórar stoðsendingar.

Valur - Keflavík 81:74

(19:16, 22:15, 26:18, 14:25)

Keflvíkingar eltu Valskonur allan leikinn en Valur hafði tíu stiga forskot í hálfleik (41:31). Keflavík heldur toppsætinu en Valur er nú aðeins tveimur stigum á eftir þeim.