Rétturinn atvinna
Rétturinn atvinna

Íþróttir

Líf mitt snýst um íslenska hestinn
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 19. ágúst 2023 kl. 07:56

Líf mitt snýst um íslenska hestinn

– segir Jóhanna Margrét Snorradóttir, tvöfaldur heimsmeistari í hestagreinum.

Keflvíkingurinn Jóhanna Margrét Snorradóttir gerði sér lítið fyrir og varð tvöfaldur heimsmeistari á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fram fór í Hollandi og lauk á sunnudaginn. Ekki bara að Jóhanna sé af Suðurnesjum, hesturinn sem hún keppti á heitir Bárður og er frá Melabergi á Stafnesi og til að fullkomna þrennuna þá tamdi Snorri Ólason, faðir Jóhönnu, Bárð.

Gleði- og sorgartár féllu á sama tíma

Heimsmeistaramót íslenska hestsins er haldið annað hvert ár og gildir sú regla með þá hesta sem fara frá Íslandi á mótið að þeir eiga ekki afturkvæmt. Ástæðan er einföld, um einfalda sóttvarnaraðgerð er að ræða. Jóhanna var nýbúin að kveðja Bárð og var að ferðbúast þegar blaðamaður náði tali af henni. „Þetta voru mjög blendnar tilfinningar, bæði ofboðsleg gleði yfir að hafa unnið tvo heimsmeistaratitla en í leiðinni mikil sorg yfir að þurfa kveðja þennan vin minn sem ég hef verið með nánast daglega í fimm ár, nokkrum klukkustundum eftir að keppni lauk fór hann til nýs eiganda í Sviss. Það voru því bæði gleði- og sorgartár sem féllu í gær en ég vissi auðvitað af þessu, svona eru reglurnar. Það voru líka sviptingar í sjálfri keppninni, ég var grátlega nærri því að landa þremur titlum, það munaði bara 0,03 á mér og þeim sem vann fjórgang V1 en svo vann ég tölt T1 og þar með samanlagt í fjórgangi og tölti eftir forkeppni.“

Þar sem leiðir skilja hjá Jóhönnu og Bárði þarf Jóhanna nýjan gæðing. „Ég er kominn með tvo hesta sem koma til greina sem keppnishestar, þeir eru átta og níu vetra en Bárður er þrettán vetra. Það er talað um að hestar geti verið að toppa allt að tuttugu vetra svo Bárður á nóg eftir hjá nýjum eiganda. Þessir tveir hestar sem ég er að taka við eru mjög efnilegir en ekki hægt að fullyrða núna hvort þeir verði keppnishestar á heimsmeistaramóti eða ekki, það kemur bara í ljós.

Fyrrum eigendur Bárðar, Gunnar Auðunsson og Snorri Ólason | Glæsilegt samspil hests og knapa. Jóhann á Bárði frá Melabergi.

Ég hef einu sinni farið á heimsmeistaramót íslenska hestsins, keppti í unglingaflokki árið 2015 en það eru fjögur ár síðan mótið var haldið síðast, það datt niður vegna COVID. Með því að vinna núna tryggði ég mér keppnisrétt á næsta móti en annars er landsliðseinvaldur sem velur sjö fullorðna knapa og fimm ungmenni á heimsmeistaramótið. Bæði er farið eftir árangri á mótum hérlendis en svo getur einvaldurinn valið án þess að taka tillit til þess árangurs, t.d. var einn Íslandsmeistari ekki valinn núna.

Ég hef verið innan um hesta síðan ég var í móðurkviði, mamma og pabbi hafa alltaf verið í hestum og eru félagar í Hestamannafélaginu Mána, ég er líka félagi en hef undanfarin ár búið á bæ rétt fyrir utan Hellu ásamt kærastanum mínum og tengdaforeldrum. Við erum á fullu að rækta hross svo það má segja að líf mitt snúist um íslenska hestinn,“ sagði heimsmeistarinn Jóhanna Margrét að lokum.