Guðjón er tippmeistari Víkurfrétta
Það lá við að kalla þyrfti út löggilda endurskoðendur til að fá úr því skorið hver væri sigurvegarinn í tippleik Víkurfrétta en fyrir lokaumferðina á laugardaginn var ljóst að baráttan væri á milli Garðmannanna Guðjóns Guðmundssonar og Björns Vilhelmssonar. Guðjón átti einn leik á sinn gamla liðsfélaga úr Víði en Björn sýndi hvers lags baráttuhundur hann var og er, fékk 8 rétta á móti 7 hjá Guðjóni og þar með upphófst reikningsvinnan.
Í reglum leiksins kom skýrt fram að ef tveir eða fleiri myndu enda jafnir, yrði málið útkljáð svona:
- Hvað eru margir réttir leikir með einu merki í heildina í öllum fjórum lokaumferðunum.
- Hvað eru margar tvítryggingar réttar í öllum fjórum lokaumferðunum.
- Hver er með flesta rétta á fyrstu sex leikjum seðilsins, samtals í öllum fjórum lokaumferðunum.
Það var í þessum þriðja lið sem Guðjón hafði betur, 18-15. Þeir náðu báðir 18 réttum í leikjum með einu merki og þeir náðu báðir 8 leikjum réttum með merkjum með tveimur merkjum.
Garðmennirnir enduðu með 34 rétta, Brynjar Hólm Sigurðsson náði 27 réttum og Joey Drummer rak lestina með 19 rétta.
Gleði á sundlaugarbakkanum
Guðjón var við sundlaugarbakkann á Tene í sigurvímu þegar blaðamaður náði tali af honum.
„Ég þakka kærlega fyrir að fá að taka þátt í þessum skemmtilega leik, ég var búinn að sakna þessa dálkar í Víkurfréttum og fylgdist spenntur með í fyrra og beið og vonaði að ég myndi fá að spreyta mig á þessu tímabili. Ég gladdist mikið þegar kallið loksins kom og ekki skemmdi fyrir að mæta mínum gamla liðsfélaga úr Víði, Birni Vilhelms. Ég var með hæfilegar væntingar fyrir þá viðureign en fyrst ég komst í fjögurra manna úrslitin fann ég hvernig gamla keppnisskapið byrjaði að krauma í mér! Þar sem ég hef gaman af spennu og vissi að lesendur myndu vilja fá spennu í lokaslaginn, ákvað ég að leyfa mínum gamla félaga að jafna mig svo úr yrði æsispennandi útreikningur á lokaniðurstöðunni. Fyrir þessi fjögurra manna úrslit vissi ég upp á tíu að baráttan yrði á milli okkar Garðbúanna, ég hafði nákvæmlega engar áhyggjur af fuglunum úr Keflavík.
Ég hlakka mikið til að skella mér á Wembley, auðvitað hefði verið skemmtilegra að sjá mína menn í United en ef ég hefði getað valið um að sjá þá á Wembley eða í sjónvarpinu í úrslitaleik Evrópudeildarinnar á miðvikudaginn, hefði valið verið mjög einfalt. Þessi úrslitaleikur á móti Tottenham er einhver mikilvægasti leikur sem liðið hefur leikið í háa herrans tíð! Tap og liðið verður af mjög miklum tekjum því ekki nóg með að sigur gefi sæti í Meistaradeildinni, heldur mun tap þýða enga Evrópukeppni og við vitum að bestu leikmennirnir vilja leika í Champions league. Þetta er sannkallaður „allt eða ekkert“ leikur, dauði eða heimsyfirráð!
Vildi nýtt lið í Suðurnesjabæ
Eins og margoft hefur komið fram er Guðjón úr Garðinum og hefur sína skoðun á íþróttamálum Suðurnesjabæjar og var fylgjandi stofnun nýs félags.
„Ég var virkilega að vona að mínir fyrrum sveitungar og nágrannar hefðu sammælst um að stofna nýtt félag. Mér fannst mjög mikill munur á að sameina Víði og Reyni, eða stofna nýtt félag. Ég skil vel þær tilfinningar sem liggja að baki en með því að stofna nýtt félag var öllum tilfinningum ýtt til hliðar. Víðir og Reynir áttu að lifa áfram, það hefði bara verið stofnað nýtt félag. Ég held að allir hljóti að geta verið sammála um að meiri líkur eru á árangri í knattspyrnu ef þessi bæjarfélög snúa bökum saman, í stað þess að vera berjast um sömu krónurnar og oft á tíðum, sömu leikmennina. Við vitum öll að það er bara knattspyrna sem kemst að hjá þessum félögum en með því að stofna nýtt íþróttafélag hefði gefist betri möguleiki á að koma öðrum greinum að eins og sundi til dæmis.
Ég vona innilega að aðilar muni endurhugsa þetta en ég ákvað strax að skipta mér ekki neitt af þessum málum, þau sem búa í þessum bæjarfélögum eiga að taka svona stóra ákvörðun, ekki við sem erum þaðan en búum ekki lengur,“ sagði Guðjón að lokum.