ReykjanesOptikk
ReykjanesOptikk

Fréttir

Ómönnuð eftirlitsflugvél í tilraunaflugi frá Keflavíkurflugvelli
Myndin var tekin á þriðjudaginn af vélinni framan við skýli 831 á Keflavíkurflugvelli. VF-mynd: Hilmar Bragi
Fimmtudagur 15. maí 2025 kl. 14:32

Ómönnuð eftirlitsflugvél í tilraunaflugi frá Keflavíkurflugvelli

Ómönnuð eftirlitsflugvél Bandaríkjahers, af gerðinni MQ9 - Reaper, kom til landsins nýverið og flaug tilraunaflug frá Keflavíkurflugvelli í byrjun vikunnar. Greint er frá því á fésbókarsíðu utanríkisráðuneytisins.

Vélin tekur nú þátt í æfingu Atlantshafsbandalagsins „Formidable Shield 2025“ sem fram fer vestan við Skotland og stendur til 21. maí.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Flug með ómönnuðum flugvélum eru nýmæli á Keflavíkurflugvelli, en tímasetningar fluga taka mið af umferð um flugvöllinn.

Með móttöku slíkrar vélar sýnir Ísland getu sína til að veita bandalagsríkjum margþætta gistiríkjaþjónustu og sendir skýr fælingarskilaboð til óvinveittra þjóða.

Enn fremur er það jákvætt innlegg í varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna að flugvél frá Bandaríkjaher hafi verið sú fyrsta sinnar tegundar til að nýta sér þessa getu og aðstöðu á Íslandi.

Í samvinnu við stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins á Sigonella á Ítalíu hafa varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins, varnarmálasvið Landhelgisgæslunnar, Samgöngustofa og Isavia unnið að því að langdrægar eftirlitsflugvélar bandalagsins og einstakra bandalagsríkja geti nýtt Keflavíkurflugvöll sem varaflugvöll þegar þær sinna eftirliti á Norður-Atlantshafi eða gert út héðan sé þess þörf. Sú vinna hefur gengið vel og er formlegum undirbúningi nú lokið.

Við gerð verkferla var haft samráð við flugstjórnaryfirvöld í Evrópu þar sem sambærilegar flugvélar hafa verið í notkun.