Deilt um útboð á almenningssamgöngum í Reykjanesbæ
Samþykkt bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á niðurstöðu útboðs vegna almenningssamgangna í sveitarfélaginu vakti nokkra gagnrýni á síðasta fundi bæjarstjórnar sem haldinn var 7. maí. Meirihluti bæjarstjórnar lagði áherslu á að farið hefði verið að öllum lögum og að hagkvæmasta tilboðinu hefði verið tekið, en Sjálfstæðisflokkurinn lýsti sig algerlega andvígan samningsgerðinni og vildi hafna báðum tilboðum sem bárust.
Forsendur útboðsins rangar
Í bókun frá Helgu Jóhönnu Oddsdóttur fyrir hönd fulltrúa Sjálfstæðisflokksins kom fram að flokkurinn hefði hafnað báðum tilboðum á fundi bæjarráðs 30. apríl. Flokkurinn gagnrýndi að tilboðin hefðu verið verulega yfir kostnaðaráætlun, og að útboðsgögnin hefðu verið gölluð – m.a. rangur fjöldi bíla, kílómetrafjöldi og raunkeyrsla.
Í bókuninni segir jafnframt að breytingar á gögnum í ferlinu gætu haft áhrif upp á tugi milljóna króna á ári, auk þess sem skaðabótaskylda gæti skapast. Flokkurinn kallaði eftir því að nýta tækifærið til að endurskoða kerfið í heild, í ljósi þess að almenningssamgöngukerfið hefur haldist óbreytt í nærri níu ár þrátt fyrir mikla fjölgun íbúa og aukna umferð.
Hagkvæmasta tilboðinu var tekið
Guðný Birna Guðmundsdóttir lagði fram bókun fyrir hönd meirihlutans þar sem því var áréttað að allir bjóðendur fengu sömu upplýsingar, og að útboðið hefði verið unnið í samstarfi við Consensa, sem hefur víðtæka reynslu af opinberum útboðum.
Í bókun meirihlutans sagði að Reykjanesbær fylgdi lögum og skilmálum í þessu ferli líkt og ávallt, og að ákvörðun bæjarráðs um að taka lægra tilboði hefði verið rökrétt og hagkvæm fyrir bæinn. Meirihlutinn óskaði jafnframt nýjum rekstraraðila almenningssamgangna velfarnaðar í komandi samstarfi.
Margrét Þórarinsdóttir, fulltrúi Umbótar, sat hjá við afgreiðslu málsins. Fundargerðir bæjarráðs voru annars samþykktar með ellefu atkvæðum og enginn greiddi atkvæði gegn.