Íþróttir

Bannið óhóflegt að mati stjórnar KKD UMFN
Fimmtudagur 8. október 2020 kl. 09:35

Bannið óhóflegt að mati stjórnar KKD UMFN

Eins og fram hefur komið var Zvonko Buljan leikmaður Domino's-deildarliðs Njarðvíkur í dag dæmdur í þriggja leikja bann af aga- og úrskurðarnefnd KKÍ. Niðurstaða nefndarinnar er stjórn Körfuknattleiksdeildar UMFN mikil vonbrigði.

 Stjórn KKD UMFN mótmælti ekki kærunni til aga- og úrskurðarnefndar þegar hún var upphaflega send til félagsins enda áttu gjörðir Buljan sem hann er dæmdur fyrir ekkert erindi við körfuknattleik. Njarðvík harmar þessa hegðun leikmannsins og verður tekið á málinu innanbúðar með viðeigandi hætti.

 Það er einróma mat stjórnar KKD UMFN að í þessu máli hafi aga- og úrskurðarnefnd farið umtalsvert úr hófi fram við dómskvaðningu sína. Að vísa til reglugerðar um líkamsmeiðingar eða tilrauna til slíks, þegar myndbandsupptakan sýnir glögglega að þarna var á ferðinni óviðeigandi hegðun og tilraun til ögrunar án líkamsmeiðinga, er óhóf af hálfu aga- og úrskurðarnefndar.

 Síðustu sex ár hafa sex leikmenn á Íslandi verið dæmdir í þriggja leikja bann eða meira. Ástæður hafa verið m.a. „hættuleg framkoma gagnvart dómurum leiksins.“ - „Sérlega grófur leikur eða ofbeldi.“ - „Alvarlega grófur leikur.“

Myndbandið sem farið var vel yfir í Körfuboltakvöldi sýnir svo að ekki verður um villst að sú var ekki raunin í viðureign KR og Njarðvíkur þann 3. október og því vill stjórn KKD UMFN hvetja stjórn KKÍ sem og aga- og úrskurðarnefnd til þess að endurskoða niðurstöðu sína í málinu.