Max 1
Max 1

Hlaðvarp Víkurfrétta

Hlaðvarp // Sævar Þorkell Jensson
Fimmtudagur 15. febrúar 2024 kl. 15:55

Hlaðvarp // Sævar Þorkell Jensson

Sævar Þorkell Jensson, betur þekktur sem Keli, hefur í næstum 60 ár, frá því hann var ungur strákur, safnað úrklippum og eiginhandaráritunum tónlistarfólks í úrklippubækur. Bækurnar eru mikil tónlistarverðmæti og urðu tilefni sérstakrar sýningar í Rokksafni Íslands í Reykjanesbæ seint á síðasta ári. Keli hefur lagt á sig mikla vinnu við að safna áritunum í bækurnar sínar og segir í viðtali við Víkurfréttir frá því þegar hann hitti Mick Taylor úr Rolling Stones og setti upp hvíta hanska til að fá eitthvað meira en eiginhandaráritun.

„Það væru ekki til neinar stjörnur ef aðdáendur væru ekki til. Oft er þetta sama fólkið, en alvöru safnarar eru samt fámennur hópur, sem hefur í gegnum aldirnar haldið til haga mörgu af því sem er til sýnis á söfnum um allan heim,“ sagði um sýningu Kela í Rokksafninu á sínum tíma. Safnarar á Íslandi safna ólíklegustu hlutum, en það eru ekki margir sem eru jafn ákafir safnarar á sviði rokk-, popp- og hvers konar dægurtónlistar eins og Keli.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Keli hefur safnað eiginhandar-áritunum og úrklippum frá árinu 1964 þegar hann sá Hljóma fyrst á sviði. Keli á eitt stærsta úrklippusafn um dægurtónlist á Íslandi. Hann mætir gjarnan á tónleika með úrklippubók og fær viðkomandi tónlistarfólk til að rita nöfn sín í bókina. Honum er jafnan vel tekið og hefur safnað áritunum flestra poppara og rokkara landsins. Hann á líka eiginhandar-áritanir heimsþekktra tónlistarmanna.

Úrklippubækur Kela geyma margskonar fróðleik og spanna dægurtónlistarsöguna í rúmlega hálfa öld. Bækurnar í dag eru rúmlega þrjú hundruð og fimmtíu talsins. Um er að ræða mikil menningarverðmæti og merkilega heimild um tónlistarsöguna.

Víkurfréttir tóku hús á Kela þegar sýningin stóð yfir í Rokksafni Íslands og heimsóttu hann einnig á Klapparstíginn í Keflavík þar sem hann er með sitt einkasafn í kjallaranum, auk þess að hafa lagt undir sig borðstofuna með sínar úrklippubækur.