Fréttir

Útihús við Merkines í Höfnum alelda í nótt
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 31. desember 2020 kl. 03:29

Útihús við Merkines í Höfnum alelda í nótt

Allt tiltækt slökkvilið frá Brunavörnum Suðurnesja, ásamt lögreglu, var kallað að Merkinesi við Hafnir í nótt eftir að eldur varð laus í útihúsum.

Tilkynnt var um eldinn til Neyðarlínunnar þegar klukkan var um tuttugu mínútur gengin í tvö í nótt. Þegar fyrsti slökkvibíll kom á vettvang var útihúsið alelda og hrunið að hluta.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fljótlega kom liðsauki slökkviliðsmanna á staðinn með tankbíl og annan dælubíl.

Slökkvistarf gekk greiðlega en slökkviliðsmenn bjuggust við að vera eitthvað áfram inn í nóttina að slökkva í glæðum.

Reykurinn frá brunanum var varasamur en asbest-klæðning var í húsinu sem brann og agnir úr asbesti eru krabbameinsvaldandi.

Íbúar í Suðurnesjabæ, bæði Sandgerði og Garði, fundu sterka brunalykt í nótt en vissu ekki að upptökin væru við Hafnir.

Þegar þessi frétt er skrifuð á fjórða tímanum í nótt liggur ekki fyrir hver eldsupptök voru. Útihúsin eru hins vegar gjörónýt eftir brunann.

Hér aðeins neðar á síðunni eru ljósmyndir sem Hilmar Bragi tók á vettvangi í nótt.

Útihús við Merkines alelda // 31. desember 2020