Fréttir

Tveir næstu grunnskólar á Ásbrú og í Hlíðarhverfi
Með áframhaldandi hraðri fjölgun íbúa þarf á næstu árum að byggja tvo nýja grunnskóla. Þeim er ætlaður staður annars vegar á Ásbrú og hins vegar í Hlíðarhverfi, þar sem myndin hér að ofan er tekin. VF-mynd: Hilmar Bragi.
Föstudagur 25. nóvember 2022 kl. 13:42

Tveir næstu grunnskólar á Ásbrú og í Hlíðarhverfi

Uppbygging leik- og grunnskóla í Reykjanesbæ

„Vegna gríðarlegrar fólksfjölgunar undanfarinna ára höfum við átt í fullu fangi með að útvega nægan fjölda leikskólaplássa til að geta staðið við núverandi viðmið um inntöku barna við 24 mánaða aldur.  Ekki hefur gengið vel að fjölga plássum nógu hratt til að geta lækkað inntökualdur í 18, hvað þá í 12 mánaða aldur, en að því er  vissulega áfram stefnt. Til að koma til móts við þau markmið hefur niðurgreiðsla til dagforeldra vegna barna sem eru 18 mánaða og eldri verið aukin svo nú greiða foreldrar og forráðamenn jafn hátt gjald og væru börnin á leikskóla,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri þegar hann mælti fyrir fjárheimildum Reykjanesbæjar, og þriggja ára áætlun 2024-2026 í fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi 15. nóvember.

Í máli bæjarstjóra um skólamál kom einnig fram að framkvæmdir við þriðja og síðasta hluta Stapaskóla, leikskólahlutann, hefjast þegar núverandi  byggingu íþróttahúss og sundlaugar lýkur. Þá er gert ráð fyrir að nýr leikskóli rísi í Dalshverfi III og framkvæmdir við leikskóla í Hlíðarhverfi hefjist af fullum krafti á nýju ári í samvinnu við verktakann sem á landið og er að byggja upp hverfið.

„Ljóst er að með áframhaldandi hraðri fjölgun íbúa þarf á næstu árum að byggja tvo nýja grunnskóla. Þeim er ætlaður staður annars vegar á Ásbrú og hins vegar í Hlíðarhverfi. Óformleg samtöl við skólayfirvöld Fjölbrautaskóla Suðurnesja hafa leitt í ljós áform skólans um áframhaldandi vöxt á núverandi stað og ekki aukið líkur á að hægt verði að nýta það húsnæði fyrir grunnskóla,“ sagði Kjartan Már.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024