Fréttir

Tólf nýir rafmagnsbílar fyrir heimahjúkrun á Suðurnesjum
Margrét Blöndal, Rósa Víkingsdóttir, Inga Ingólfsdóttir, Kristrún Anna Skarphéðinsdóttir og Vigdís Elísdóttir vinna í heimahjúkrun
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
föstudaginn 16. september 2022 kl. 10:00

Tólf nýir rafmagnsbílar fyrir heimahjúkrun á Suðurnesjum

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur tekið í notkun tólf nýja rafmagnsbíla fyrir heimahjúkrun á Suðurnesjum. Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS, segir bílana vera hluta af stefnu ríkisins um aukna áherslu á umhverfismál í fjárfestingum og rekstri. 

„Við sem heilbrigðisstofnun erum jú hluti af umhverfinu og við þurfum að leggja okkar af mörkum til að reyna að draga úr umhverfisfótspori okkar eins og kostur er,“ segir Markús. Þá segir hann bílana ekki aðeins bæta vinnuaðstæður starfsfólks HSS við dagleg störf heldur bindur hann vonir við að kynni þeirra á bílunum verði hvatning til þess að nýta umhverfisvæna ferðamáta utan vinnu. Aðspurður hvað þessi breyting þýði fyrir heimahjúkrun á svæðinu segir Markús: „Bílarnir auðvelda starfsfólki ekki aðeins að veita þjónustu, þeir ýta undir sýnileika stofnunarinnar í samfélaginu og því tekur starfsfólk HSS þessari fjárfestingu fagnandi. Við höfum verið í átaki undanfarin misseri að gera nærsamfélaginu betur grein fyrir því breytingastarfi sem við erum að sinna. Það er liður í því að byggja upp eftirsóknarverðan vinnustað sem er lykillinn að því að geta veitt betri þjónustu. Þetta hjálpast því allt að.“ 

Vonast til þess að bílarnir minni fólk á að taka sérstöðu með HSS

Markús segir það skipta máli að fólk í samfélaginu taki sérstöðu með HSS sem stendur í ströngu við að byggja upp sterkari heilbrigðisstofnun fyrir samfélagið. „Sýnileiki þeirra verka er ekki alltaf öllum ljós fyrr en á reynir en við erum þrátt fyrir það að gera svo margt annað, sem fólk getur lesið um á vef okkar eða Facebook, sem mun skila okkur betra samfélagi með tíð og tíma. Við yrðum því glöð ef fólk tæki sérstöðu með okkur og minnist þess þegar það sér okkur í umferðinni að við erum hér til þjónustu fyrir okkur öll,“ segir Markús.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílarnir eru knúnir áfram á rafmagni og eru vel merktir