Stórkostlegar fréttir og gríðarlega mikilvægar fyrir Suðurnesjabæ
- segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, um jákvætt svar ríkisvaldsins við ákalli bæjaryfirvalda um málefni barna með fjölþættan vanda.
Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa fengið jákvæð svör hjá ríkisvaldinu við neyðarkalli sem þau sendu þeim nýlega um að taka sér tak í málefnum barna með fjölþættan vanda en Suðurnesjabær sagði úrræðaleysi ríkja í málaflokknum. Magnús Stefánsson, bæjarstjóri, kom brosandi út af fundi með ríkisstjórn Íslands í Keflavík síðasta föstudag.
„Börn með fjölþættan vanda voru efst á blaði okkar fyrir þennan fund. Suðurnesjabær hefur barist fyrir því ásamt öðrum sveitarfélögum að ríkið taki þennan málaflokk alveg að sér. Fyrst og fremst til að halda utan um þau börn sem um ræðir en líka út af kostnaði. Þetta er gríðarlegur kostnaður sem fellur til hjá þeim sveitarfélögum sem að þurfa að leysa þessi mál,“ sagði Magnús og bætti við að það hafi komið fram hjá bæði fjármálaráðherra og barnamálaráðherra að það væri búið að ganga frá samkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga um að ríkið taki þetta alfarið yfir, sennilega frá júní næstkomandi. „Mér finnast þetta stórkostlegar fréttir og gríðarlega mikilvægar fyrir Suðurnesjabæ og þau sveitarfélög önnur sem eru í þessari stöðu.“
Í neyðarkalli Suðurnesjabæjar kom fram að tvö börn með fjölþættan vanda geta kostað Suðurnesjabæ 330 milljónir króna á ári. Um er að ræða ræða búsetuúrræði fyrir tvo einstaklinga í einkareknum úrræðum og er áætlað að kostnaður vegna þeirra fyrstu fimm mánuði ársins 2025 verði 136,5 milljónir króna. Fyrir liggur erindi frá velferðarsviði Suðurnesjabæjar, þar sem óskað er eftir fjárheimild að fjárhæð 86,5 milljónir króna til viðbótar við fjárheimild í fjárhagsáætlun 2025. Suðurnesjabær hefur bent á að kostnaður við eitt búsetuúrræði er á ársgrundvelli á bilinu 120-160 milljónir króna.
Bæjarráð Suðurnesjabæjar frestaði að taka afstöðu til erindis velferðarsviðs og fól bæjarstjóra að koma ályktun á framfæri við ráðuneyti og stofnanir sem málið varðar.
Bæjarstjóri og bæjarfulltrúar úr Suðurnesjabæ fengu áheyrn ríkisstjórnarinnar og þar kom fram að ríkisvaldið tekur að sér börn sem flokkast undir þriðja stigs greiningu barna með fjölþættan vanda.
Magnús segir málaflokkinn hafa verið verulega íþyngjandi í útgjöldum fyrir sveitarfélagið og skiptir gríðarlega miklu máli.
„Ég veit að þetta mál var nánast komið í höfn hjá síðustu ríkisstjórn þegar ákveðið var að efna til kosninga í haust. Það er jákvætt að núverandi ríkisstjórn fylgi þessu máli eftir og klári það. Það er gríðarlega gott mál.“
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra sagði þetta mál hafa verið með því fyrsta sem hún flaggaði í ríkisstjórninni, vandi barna með fjölþættan vanda og þessi gríðarlegi kostnaður. „Fyrst er það vistun þessara barna og þar vitum við að fyrri ríkisstjórn stóð sig ekki og málefnið ekki í miklum forgangi hjá þeim, þó ég telji að minn forveri hafi lagt mikið á sig og með hjartað á réttum stað. Þá erum við með þessi gríðarlega þungu úrræði sem hafa setið á bæjarfélögum og jafnvel litlum sveitarfélögum sem ráða illa við það. Ég flaggaði þessu ákveðið og er rosalega hamingjusöm að geta sagt frá því að það er verið að ganga frá samningi um að ríkið gangi inn í málefni þessara barna og tekur stóran þátt í kostnaði við vistun þeirra,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra í samtali við Víkurfréttir eftir ríkisstjórnarfundinn.