Flugger
Flugger

Fréttir

Skýr merki um landris í Svartsengi
COSMO-Skymed bylgjuvíxlmynd sem spannar 24 klukkustundir milli 18 og 19 nóvember kl. 06:41. Merki um landris sést í appelsínugulu/rauðu litunum í kringum Svartsengi sem gefur til kynna djúpa þenslu (>5 km).
Mánudagur 20. nóvember 2023 kl. 12:45

Skýr merki um landris í Svartsengi

Nýjar gervitunglamyndir af Svartsengi og kvikuganginum ásamt öðrum gögnum voru til umræðu á samráðsfundi sérfræðinga Veðurstofunnar, Háskóla Íslands og almannavarna í morgun.

Á gervitunglamyndum sem sýna breytingar sem orðið hafa frá 18. – 19. nóvember má sjá skýr merki um landris í Svartsengi á sömu slóðum og landris hafði mælst áður en kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. Þetta er í samræmi við það sem hefur sést á GPS stöðvum umhverfis Svartsengi og er ferli sem hófst strax í kjölfarið á kvikuhlaupinu 10. nóvember. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Líkön sem reiknuð hafa verið út frá gervitunglamyndunum sýna að landrisið í Svartsengi er talsvert hraðara en áður en kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. Almennt þegar kvikugangur myndast sígur land í miðju gangsins eins og við sjáum í Grindavík, en rís sitt hvoru megin við hann. Merki um landris í Svartsengi vegna kvikusöfnunar hefur sést í nokkurn tíma, en svo blandast inn í þær mælingar áhrif frá myndun kvikugangsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Það að nú sjáist skýr merki um landris í Svartsengi breytir hins vegar ekki líkunum á því að það gjósi á kvikuganginum. Það er metið m.a. út frá því að jarðskorpan yfir kvikuganginum er miklu veikari heldur en jarðskorpan yfir landrisinu í Svartsengi en einnig liggur hún grynnra. Þannig að á meðan að ekki mælist mikil skjálftavirkni á svæðinu í Svartsengi eru ekki taldar miklar líkur á að gos komi upp þar, heldur miklu frekar yfir kvikuganginum þar sem kvikan á auðveldast með að komast upp á yfirborð.

Áframhaldandi landris við Þorbjörn í kjölfar myndunnar kvikugangsins, sýnir að við erum ennþá í miðri atburðarás. Áfram þarf að gera ráð fyrir að þessi atburðarás á svæðinu geti breyst með litlum fyrirvara. Veðurstofan, í góðu samstarfi við sérfræðinga Háskóla Íslands, mun halda áfram vakta svæðið eins vel og hægt er og stöðugt endurmeta og túlka þau gögn sem berast.