Sjaldan sést eins mikið af fiski í sjónum
„Ég hef aldrei séð annað eins magn af fiski í sjónum,“ segir Klemens Einarsson, skipstjóri á Katrínu GK-266 sem er í eigu Stakkavíkur í Grindavík. Ljósmyndara Víkurfrétta bar að garði á sunnudaginn þegar áhöfnin var að landa góðum róðri en sjálfur var Klemens vant við látinn sökum veikinda. Hann hefur verið að jafna sig síðustu daga og á meðan hefur Jón Þór sonur hans sem jafnan er stýrimaður, verið með skipstjórnina.
Klemens er eldri en tvæ vetur í bransanum og man ekki annað eins fiskerí. „Eftir mikla brælu frá byrjun febrúar til sautjánda, þá hefur verið botnlaust fiskerí, við höfum dregið einhver 100 tonn upp úr sjó. Katrín er 26 brúttótonna stálskip, er tæpir fimmtán metrar að lengd en við erum á línuveiðum, nánar tiltekið með beitningarvél. Höfum mest verið að beita síld en höfum stundum farið með smokkfisk, besta beitan er nú alltaf fersk loðna en það er enginn að róa með bala lengur, það er erfitt að nota loðnu þegar notast er við beitningarvél. Við byrjuðum að róa með þrjátíu og sex stokka en í hverjum stokki eru 400 krókar, samtals 14.400 krókar. Fiskeríð hefur bara verið svo svakalegt að við höfum fækkað stokkunum niður í tuttugu og sjö en mest höfum við landað 14 tonnum, reyndar í tveimur löndunum. Fullfermi er líklega um 13 tonn, við tókum einn slíkan róður um daginn. Við erum þrír í áhöfn og erum allir úti á dekki en einn þarf andæva og vera á goggnum, annar að blóðga og sá þriðji að sjá um línuna.
Vonandi verður blíða fram að hrygningarstoppi sem hefst 1. apríl, þ.e. út að þremur mílunum en stóra stoppið eins og það er kallað, hefst svo 12. apríl og er til 21. Við munum ekki slá slöku við fram að stoppi, nú er hávertíð, mikið af fiski í sjónum og því best að ná honum upp núna, með litlum tilkostnaði,“ sagði Klemens.