Fréttir

Risaskjaldbaka á ferð í Garðsjó!
Þriðjudagur 28. ágúst 2007 kl. 17:29

Risaskjaldbaka á ferð í Garðsjó!

Fólk sem statt var í hvalaskoðunarbátnum Moby Dick úti á Garðsjó í dag, varð heldur betur undrandi þegar það rak augun í risa-sæskjaldböku sem svamlaði við yfirborðið. Fólk átti jú von á því að sjá hvali á þessum slóðum en ekki suðræna risaskjaldböku. Að sögn Helgu Ingimundardóttur, rekstaraðila Moby Dick, má ætla að skjaldbakan hafi verið u.þ.b. 1,2 – 1,5  metri á lengd.


„Við sáum að þarna var eitthvað annað en hvalur að svamla í yfirborðinu og vorum að velta þessu fyrir okkur þegar hún kom upp á yfirborðið. Hún var umkringd höfrungum og það var eins og þeir væru að reyna að hjálpa henni. Hún svamlaði við yfirborðið nokkra stund þannig að við sáum hana vel áður en hún hvarf  sjónum okkar,” sagði Helga og kvað hún viðstadda varla hafa trúað eigin augum. Efir ferðina í dag gerði hún Hafró viðvart um þetta undarlega tilvik. Helga leitaði sér upplýsinga um dýrið og þá kom í ljós að um er að ræða svokallaða leðurskjaldböku* en þær geta orðið allt að 360 kílóa þungar.

Ekki skal fullyrt hér hvort þetta sé enn eitt merkið um hlýnun sjávar en síðastliðið sumar sást margoft til beinhákarla á svipuðum slóðum. Komu þeir m.a. inn í Stakksfjörðinn þar sem þeir héldu sig um tíma.  Beinhákarlar halda sig í hlýrri sjó suður af landi og þótti þvælingur þeirra hér fyrir Reykjanesið vera vísbending um umtalaða hlýnun.

*Uppfært: Samkvæmt nýjum upplýsingum vf.is er líklegra að um sé að ræða sk. Loggerhead-skjaldböku, sem er önnur tegund en leðurskjaldbakan. Sú tegund þrífst í nokkuð svalari sjó, eða í Miðjarðarhafi og við strendur Flórída.


Mynd: Loggerhead-skjaldbaka af þeirri tegund sem hvalaskoðunarfólk sá í Garðsjó í dag.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024